Lífið

Birgitta prinsessa er látin

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Birgitta prinsessa fyrir miðju.
Birgitta prinsessa fyrir miðju. Ian Gavan/Getty Images

Birgitta prinsessa af Svíþjóð er látin, 87 ára að aldri. Hún var eldri systir Karls Svíakonungs og lést á Mallorca þar sem hún hefur dvalið undanfarin ár.

Í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins er vísað til yfirlýsingar frá Svíakonungi vegna andláts prinsessunnar. Hann segir að hennar verði sárt saknað, hún hafi verið skelegg og framhleypin kona sem allir hafi elskað.

Þá sendir konungurinn börnum Birgittu og barnabörnum hennar samúðarkveðjur sínar. Þegar Birgitta fæddist árið 1937 máttu einungis karlkyns meðlimir sænsku konungsfjölskyldunnar verða erfingjar og því kom hún aldrei til greina sem erfingi krúnunnar á sínum tíma.

Faðir þeirra Karls Gústafs og Birgittu, krónprinsinn Gústav Adolf ést í flug­slysi árið 1947 á Kastrup flug­velli í Kaup­manna­höfn. Hann var á leið frá Amsterdam til Stokk­hólms og vél hans var að milli­lenda í Dan­mörku þegar stýris­búnaður vélarinnar læstist með þeim af­leiðingum að hún hrundi til jarðar. 22 far­þegar voru um borð og létust þeir allir.

Karl Gústaf varð því erfingi krúnunnar níu mánaða gamall. Hann og systur hans þær Birgitta, Margrét prinsessa, Dési­ré­e og Kristína hafa sjaldan rætt föður­missinn opin­ber­lega. Móðir þeirra Si­bylla prinsessa hefur lýst því hvernig ver­öld sín hrundi vegna and­láts Gústavs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.