Sport

Telur daga McGregor í UFC talda

Aron Guðmundsson skrifar
Conor McGregor hefur ekki barist á vegum UFC síðan árið 2021
Conor McGregor hefur ekki barist á vegum UFC síðan árið 2021 Vísir/Getty

Óvíst er hvort eða hvenær írski bardagakappinn Conor McGregor muni snúa aftur í UFC bardagabúrið. Fyrrverandi UFC bardagakappi telur engar líkur á því að McGregor, sem nýlega var dæmdur sekur í kynferðisbrotamáli, muni snúa aftur í baradagabúrið.

Í nóvember fyrr á þessu ári var McGregor dæmdur sekur í einkamáli sem höfðað var gegn honum vegna kynferðisbrots sem Írinn framdi árið 2018. Var McGregor til að greiða fórnarlambi sínu rúmlega 36 milljónir íslenskra króna í skaðabætur. 

McGregor hefur ekki stigið fæti inn í bardagabúrið á vegum UFC síðan árið 2021 er hann fótbrotnaði í bardaga við Bandaríkjamanninn Dustin Poirier. 

Búið var að stilla upp bardaga Írans við Michael Chandler í júlí á þessu ári en í aðdraganda hans braut McGregor tá og var bardaginn þeirra á milli því blásinn af. 

Nýlega greindi McGregor svo frá því á samfélagsmiðlum að hann ætti í viðræðum um að mæta samfélagsmiðlastjörnunni Logan Paul, bróður Jake Paul sem barðist nýlega við goðsögnina Mike Tyson, í hnefaleikabardaga á Indlandi.  

Enn fremur sagðis Írinn vera með augun á endurkomu í bardagabúrið eftir þann bardaga. Fyrrverandi UFC bardagakappinn Matt Brown er hins vegar ekki bjartsýnn á að McGregor muni snúa aftur í bardagabúrið. Það hefur verið hans trú yfir lengri tíma núna að McGregor muni ekki snúa aftur til keppni í MMA. 

„Mun hann berjast aftur í UFC? Það er klárt nei frá mér sem svar við þeirri spurningu. Ég tel að hann muni ekki berjast í UFC aftur,“ segir Brown og telur hann það líklegra að McGregor lendi í slag utan bardagabúrsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×