Enski boltinn

Fimm mínútna VAR-dómur en fyrsta útistig Southampton

Sindri Sverrisson skrifar
Flynn Downes skoraði jöfnunarmark Southampton og fagnaði því vel.
Flynn Downes skoraði jöfnunarmark Southampton og fagnaði því vel. Getty/Matt Watson

Botnlið Southampton krækti í stig á útivelli í fyrsta sinn á tímabilinu þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við spútniklið Brighton í kvöld, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Kaoru Mitoma kom Brighton yfir á 29. mínútu og útlitið var gott há liðinu í hálfleik, á leið upp fyrir Manchester City í 2. sæti deildarinnar.

Flynn Downes náði hins vegar að jafna metin fyrir Southampton á 59. mínútu og fleiri gild mörk voru ekki skoruð.

Southampton skoraði þó reyndar annað mark skömmu síðar, þegar Cameron Archer kom boltanum í netið eftir fyrirgjöf Ryan Fraser, en markið fékk ekki að standa.

Það tók fjóra og hálfa mínútu að komast að þeirri niðurstöðu að markið ætti ekki að standa, eftir skoðun á myndbandi, en niðurstaðan varð sú að Adam Armstrong hefði verið rangstæður og haft áhrif á leikinn.

Brighton var svo nálægt því að skora sigurmark í lokin en Simon Adingra setti boltann í stöng.

Stigið dugði þó Brighton til að komast upp í 2. sæti, með betri markatölu en Manchester City sem mætir toppliði Liverpool á sunnudag. Brighton og City eru með 23 stig, stigi meira en Chelsea og Arsenal, en Liverpool er með 31 stig á toppnum.

Southampton er enn neðst með aðeins fimm stig, fjórum stigum frá næsta örugga sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×