Enski boltinn

Liverpool fékk slæmar fréttir fyrir risaleikinn

Sindri Sverrisson skrifar
Ibrahima Konaté meiddist í hné þegar hinn brasilíski Endrick braut á honum á miðvikudaginn.
Ibrahima Konaté meiddist í hné þegar hinn brasilíski Endrick braut á honum á miðvikudaginn. Getty/Chris Brunskill

Liverpool og Manchester City mætast í sannkölluðum risaleik á sunnudag í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta. Nú er orðið ljóst að einn af fastamönnum í byrjunarliði Liverpool verður frá keppni næstu vikurnar.

Miðvörðurinn Ibrahima Konaté staðfesti í dag að hann yrði frá keppni á næstunni vegna meiðsla, en hann meiddist í hné í sigrinum gegn Real Madrid í Meistaradeild Evrópu á miðvikudag, eftir brot Endricks.

Arne Slot hefur treyst á Konaté með Virgil van Dijk í miðri vörn Liverpool í öllum deildarleikjum tímabilsins, eftir að hafa skipt Konaté inn á í upphafi seinni hálfleiks gegn Ipswich í fyrstu umferð.

Það kemur í hlut Jarell Quansah, sem hóf fyrsta deildarleik tímabilsins en fékk bara að spila 45 mínútur, eða Joe Gomez að fylla í skarðið fyrir Konaté gegn Englandsmeisturunum á sunnudaginn.

The Guardian segir mögulegt að Conor Bradley missi einnig af leiknum við City, eftir frábæra frammistöðu gegn Real, vegna meiðsla í læri í þeim leik. Trent Alexander-Arnold er hins vegar klár í slaginn.

Óvíst er hve lengi Konaté verður frá keppni en ljóst er að það verða nokkrar vikur og það á mjög annasömum tíma hjá Liverpool. Liðið leikur níu leiki í desember. Frakkinn er hins vegar staðráðinn í að snúa aftur sem fyrst.

„Núna hefst endurhæfingarferlið en ég get lofað því að ég mun snúa aftur og verða á ný besta útgáfan af sjálfum mér,“ skrifaði Konaté á Instagram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×