Handbolti

Þórir fær ekki keppnisleyfi fyrir tvo af leik­mönnum sínum á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson var með tvo leikmenn á „bakvakt“ í Noregi en þær þurfa að koma til Austurríkis til að fá keppnisleyfi.
Þórir Hergeirsson var með tvo leikmenn á „bakvakt“ í Noregi en þær þurfa að koma til Austurríkis til að fá keppnisleyfi. Getty/Oliver Hardt

Norska handboltasamabandið ætlaði að komast fram hjá „óskráðum“ reglum um skráningu tveggja leikmanna liðsins á Evrópumótið en evrópska sambandið tekur það ekki í mál.

Norðmenn túlka reglur mótsins ekki eins og evrópska handboltasambandið sem vill að Þórir Hergeirsson og liðið hans fari eftir þeirra reglum.

Málið snýst um tvo leikmenn liðsins sem eru í hópnum en ekki með liðinu úti í Austurríki.

Þetta eru þær Kristina Sirum Novak og Maja Furu Sæteren. Norðmenn ætluðu að skrá þær til leiks með afritum af vegabréfum þeirra en það má ekki. NRK segir frá.

Til að fá keppnisleyfi þá þurfa þær að mæta með vegabréf sín til Austurríkis. Norðmenn áfrýjuðu reyndar fyrri ákvörðun sambandsins en henni var strax vísað frá.

Þórir Hergeirsson var svekktur yfir niðurstöðunni eftir sigurinn á Slóveníu í fyrsta leik liðsins í gærkvöldi.

„Þetta er algjörlega .... Við skiljum ekki niðurstöðuna af því að það stendur ekkert um þetta í reglugerðinni sem við fengum,“ sagði Þórir við NRK.

„Þar stendur að þú getir skráð til leiks allt að tuttugu leikmenn. Þar kemur hins vegar ekkert fram um það að leikmaðurinn þurfi að vera á staðnum og afhenda vegabréf sitt í persónu. Þeir fengu vegabréfin rafrænt og það ætti ekki að skipta EHF neinu máli hvar leikmennirnir eru niðurkomnir,“ sagði Þórir

Norðmenn voru að spara pening með því að taka leikmennina ekki með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×