Enski boltinn

Klopp sýndi Red Bull á­huga þegar hann var enn þjálfari Liverpool

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jürgen Klopp naut gríðarlegra vinsælda hjá Liverpool enda batt hann meðal annars endi á þrjátíu ára bið félagsins eftir Englandsmeistaratitli. Hann hætti með liðið eftir síðasta tímabil. 
Jürgen Klopp naut gríðarlegra vinsælda hjá Liverpool enda batt hann meðal annars endi á þrjátíu ára bið félagsins eftir Englandsmeistaratitli. Hann hætti með liðið eftir síðasta tímabil.  Getty/James Baylis

Jurgen Klopp mun á nýju ári byrja í nýju starfi sem alþjóða yfirmaður knattspyrnumála hjá Red Bull, aðeins ári eftir að hann kulnaði í starfi og hætti sem þjálfari Liverpool. Forstjóri hjá Red Bull segist fyrst hafa boðið Klopp starfið fyrir tveimur árum og hann hafi sýnt því mikinn áhuga þá.

„Þetta tók langan tíma. Þetta var mjög, mjög langt ferli. Hugmyndin kom fyrst upp fyrir tveimur árum og þá ræddi ég við Jurgen [Klopp]. Hann sagði að honum litist mjög vel á þetta, ekki bara varðandi fótboltann heldur allar íþróttirnar sem Red Bull tekur þátt í, og hversu mikið við gerum fyrir unga íþróttamenn,“ sagði Oliver Mintzlaff, forstjóri fjárfestingasviðs Red Bull.

„Þetta kveikti mikinn áhuga hjá honum, þannig að ég hafði oft samband og reyndi að sannfæra hann um að þiggja starf. Hann sagði mér svo að hann ætlaði að framlengja hjá Liverpool þannig að ég hélt að sú hurð hefði lokast. En nokkrum mánuðum eftir að hann tilkynnti að hann myndi hætta fór ég og hitti hann í Liverpool. Ég flutti söluræðuna aftur og tókst að sannfæra hann.“

Oliver lét gamminn geysa í viðtalinu og greindi einnig frá því að Klopp hafi alls ekki verið með háar launakröfur, hann hafi verið svo hrifinn af starfinu sem stóð til boða.

Ákvörðun Klopp að þiggja starf hjá Red Bull hefur ekki fallið vel í kramið hjá mörgum. Innkoma Red Bull í knattspyrnuheiminn á sínum tíma var mjög umdeild og rekstrarfyrirkomulag félagsins er það sömuleiðis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×