Enski boltinn

Landaði forstjórastarfi hjá Forest eftir að Róm­verjar ruddu henni burt

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Lina Soulouko hefur áður starfað fyrir „fótboltafjölskylduna“ sem Nottingham Forest er hluti af.
Lina Soulouko hefur áður starfað fyrir „fótboltafjölskylduna“ sem Nottingham Forest er hluti af.

Nottingham Forest hefur ráðið nýjan forstjóra, eftir tæp tvö ár án slíks. Lina Soulouko mun taka við starfinu en henni var bolað burt af mikilli reiði úr framkvæmdastjórastarfi hjá Roma í haust.

Forest hefur ekki haft forstjóra síðan í janúar 2023, þegar Dane Murphy lét af störfum. Eigandi félagsins Evangelos Marinakis fór á kunnuglegar slóðir í leit að eftirmanni hans.

Hann hefur áður unnið með Linu Souloukou og líkað vel. Hún byrjaði sem lögfræðingur en vann sig fljótt upp í framkvæmdastjórn hjá félagi Marinakis, sem á gríska liðið Olympiacos, portúgalska liðið Rio Ave og auðvitað Nottingham Forest, sem leikur í ensku úrvaldsdeildinni.

Marinakis hefur einnig augastað á brasilíska félaginu Vasco de Gama og er í samningaviðræðum um kaup.

Souloukou mun koma eitthvað að rekstri allra félaganna og veita ráðgjöf, en aðallega einbeita sér að Nottingham Forest.

Hún hefur verið án starfs síðan í september, þá var henni bolað burt frá Roma eftir að hafa tekið afar umdeilda ákvörðun og rekið þjálfarann Daniele de Rossi, goðsögn hjá félaginu. Hún sætti hótunum af hálfu stuðningsmanna í kjölfarið og þurfti að leitast eftir lögregluvernd. Stuttu eftir það sagði hún af sér. 

En nú hefur Souloukou snúið aftur í faðm fjölskyldunnar, eins og hún orðaði það. 

„Ég er heiðruð og ánægð að ganga aftur í fótboltafjölskyldu Marinakis. Það er spennandi tækifæri að leiða Nottingham Forest og einnig leggja mitt af mörkum til hinna félaganna. Ég hlakka til að hefja störf og sækja að okkar sameiginlegu markmiðum,“ sagði hún eftir að ráðningin var tilkynnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×