Fótbolti

Inter þremur stigum frá toppnum og með leik til góða

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Marcus Thuram skoraði seinna mark Inter. Hann er næstmarkahæstur í deildinni á þessu tímabili. 
Marcus Thuram skoraði seinna mark Inter. Hann er næstmarkahæstur í deildinni á þessu tímabili.  EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Inter Milan tók á móti Como og vann 2-0 sigur í ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta. Mílanó-menn eru nú þremur stigum frá efsta sæti deildarinnar og eiga einn leik til góða á liðin fyrir ofan. 

Carlos Augusto kom Inter yfir í upphafi seinni hálfleiks eftir góðan undirbúning hjá Hakan Calhanoglu. Heimamenn óðu svo í færum en komu ekki öðru marki að fyrr en í uppbótartíma. 

Marcus Thuram var þar á ferð eftir stoðsendingu Piotr Zielinski. Þetta var ellefta deildarmark Thuram, aðeins Mateo Retegui hjá Atalanta hefur skorað meira á tímabilinu eða tólf mörk.

Stigin þrjú styrkja stöðu Inter, sem er með 37 stig í þriðja sæti. Napoli er stigi ofar í öðru sæti og Atalanta er efst með 40 stig. Þau eru hins vegar með verri markatölu og hafa spilað einum fleiri leik en Inter.

Ástæðan er sú að fresta þurfti leik Inter og Fiorentina, sem átti að fara fram fyrsta desember en verður ekki spilaður fyrr en í febrúar. Fiorentina er í fimmta sæti og þurfti að sætta sig við tap fyrr í kvöld gegn Udinese.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×