Fótbolti

Nesta látinn fara eftir að­eins einn sigur í sau­tján leikjum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alessandro Nesta hefur ekki tekist að fylgja góðum árangri fyrri þjálfara eftir.
Alessandro Nesta hefur ekki tekist að fylgja góðum árangri fyrri þjálfara eftir. Marco Luzzani/Getty Images

Alessandro Nesta hefur verið sagt upp störfum hjá ítalska úrvalsdeildarfélaginu Monza eftir að hafa aðeins unnið einn af sautján leikjum við stjórnvölinn.

Nesta átti farsælan feril sem leikmaður, var meðal annars fyrirliði Lazio, vann Meistaradeildina í tvígang með AC Milan og varð heimsmeistari með ítalska landsliðinu árið 2006. 

Nesta var öflugur miðvörður. Nordic Photos / AFP

Á þjálfaraferli sínum hefur hann stýrt Miami FC, Perugia, Frosinone og síðast Reggiana.

Hann tók við hjá Monza í sumar eftir að Raffaele Palladino, sem hafði stýrt liðinu tvö tímabil og náð frábærum árangri, fór til Fiorentina. 

Monza var að spila sín fyrstu tvö tímabil í úrvalsdeild og hafnaði í 11. og 12. sæti.

Á þessu tímabili undir stjórn Nesta hefur hins vegar ekki gengið eins vel. Liðið hefur aðeins unnið einn leik, gert sjö jafntefli, tapað níu leikjum og situr í neðsta sæti deildarinnar. Síðasti leikur Nesta við stjórn var í gærkvöldi þar sem liðið tapaði 2-1 á heimavelli gegn Juventus.

Monza tilkynnti ákvörðunina fyrr í dag, um klukkan hálf tvö, og leitin að eftirmanni Nesta stóð ekki lengi. Salvatore Bocchetti skrifaði undir samning til 2027 um hálf fjögur leitið.

Bocchetti var á sínum tíma miðvörður, líkt og Nesta. Hann hóf ferilinn á Ítalíu en eyddi níu árum í Rússlandi sem leikmaður Rubin Kazan og Spartak Moskvu. Hann á að baki fimm A-landsleiki fyrir Ítalíu og var í leikmannahópnum á heimsmeistaramótinu 2010.

Þjálfaraferill hans hófst þar sem leikmannaferillinn endaði árið 2021, hjá Hellas Verona sem þjálfari í unglingaliðum og síðar aðstoðarþjálfari og tímabundinn aðalþjálfari aðalliðsins. Hann fór frá félaginu í fyrra og hefur verið án starfs síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×