Handbolti

Vals­menn enduðu taphrinuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Agnar Smári Jónsson var mjög flottur í Valsliðinu í kvöld ekki síst í fyrri hálfleiknum.
Agnar Smári Jónsson var mjög flottur í Valsliðinu í kvöld ekki síst í fyrri hálfleiknum. Vísir/Hulda Margrét

Valur vann sex marka sigur á Stjörnunni, 40-34, í fjórtándu umferð Olís deildar karla í handbolta í kvöld.

Valsliðið var búið að tapa tveimur deildarleikjum í röð en náðu nú Haukum að stigum í fjórða sætinu. Afturelding og Fram eru stigi á undan.

Agnar Smári Jónsson og Magnús Óli Magnússon voru markahæstir hjá Val með átta mörk hvor en þeir Úlfar Páll Monsi Þórðarson og Andri Finnsson skoruðu báðir fimm mörk.

Björgvin Páll Gústavsson hefur varið meira í Valsmarkinu en hann skoraði tvö mörk sjálfur og gaf tvær stoðsendingar að auki.

Hans Jörgen Ólafsson skoraði mest fyrir Stjörnuna eða sex mörk en þeir Pétur Árni Hauksson og Tandri Már Konráðsson skoruðu fimm mörk hvor.

Valsmenn voru skrefinu á undan framan af í mjög jöfnum fyrri hálfleik. Stjörnumenn náðu reyndar tveggja marka forskoti um hann miðjan, 10-8, en Valsliðið komst aftur yfir og leiddi með einu marki í hálfleik, 19-18.

Enginn var betri í fyrri hálfleiknum en Valsmaðurinn Agnar Smári Jónsson sem skoraði sjö mörk úr átta skotum í hálfleiknum.

Valsliðið var áfram yfir í seinni hálfleik en það munaði ekki miklu á liðunum framan af smá saman sigur Valsmenn fram úr. Þeir komust fimm mörkum yfir tíu mínútum fyrir leikslok og voru með leikinn í hendi sér eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×