Sport

Yngsti heims­meistari sögunnar í skák

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gukesh Dommaraju náði að tryggja sér titilinn þrátt fyrir að vera með svart í lokaskákinni.
Gukesh Dommaraju náði að tryggja sér titilinn þrátt fyrir að vera með svart í lokaskákinni. Getty/Andrzej Iwanczuk

Indverski skákmaðurinn Gukesh Dommaraju sló 39 ára met Garry Kasparov í dag þegar hann tryggði sér sinn fyrsta heimsmeistaratitil í skák.

Dommaraju tryggði sér titilinn með því að vinna ríkjandi heimsmeistarann Ding Liren í fjórtándu og síðustu skák þeirra.

Staðan var jöfn í einvíginu fyrir þessa síðustu skák, því báðir höfðu náð í sex og hálfan vinning.

Dommaraju var með svart i lokaskákinni en nýtti sér slæm mistök Ding.

„Ég var í algjöru áfalli þegar ég áttaði mig á mistökunum,“ sagði Ding Liren í viðtali við NRK.

Með þessum sigri þá verður Dommaraju yngsti heimsmeistarinn í skák frá upphafi en hann er bara átján ára. Dommaraju er fæddur 29. maí árið 2006. Hann varð stórmeistari árið 2019 eða þegar hann var bara þrettán ára.

Gamla metið átti Garry Kasparov þegar hann vann sinn fyrsta heimsmeistaratitil árið 1985. Kasparov er fæddur árið 1963 og var 22 ára gamall þegar hann vann í fyrsta sinn.

Árið 2013 var Norðmaðurinn Magnus Carlsen 23 ára þegar hann varð heimsmeistari í fyrsta sinn. Carslen var þá sá næstyngsti til að vinna.

Magnus Carlsen óskaði nýja heimsmeistaranum til hamingju með sigurinn á samfélagsmiðlum.

Dommaraju fékk 2,5 milljónir Bandaríkjadala fyrir sigurinn sem jafngildir 350 milljónum í íslenskum krónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×