Innlent

Aftur­kalla átta frið­lýsingar

Samúel Karl Ólason skrifar
Geysir er eitt átta svæða þar sem friðlýsingar hafa verið afturkallaðar.
Geysir er eitt átta svæða þar sem friðlýsingar hafa verið afturkallaðar. Vísir/Vilhelm

Friðlýsingar átta svæða á Íslandi hafa verið afturkallaðar. Var það gert vegna úrskurðar Hæstaréttar Íslands frá því í mars um að friðlýsing verndarsvæðis Jökulsár á Fjöllum frá árinu 2019 hefði verið ólögmæt.

Í úrskurði Hæstaréttar segir að Alþingi hefði ekki fjallað um afmörkun verndarsvæðisins eins og lög gera kröfu um. Því komust dómarar Hæstaréttar að þeirri niðurstöður að umhverfis- og auðlindaráðherra hafi ekki verið heimilt að ákvarða friðlýsinguna.

Fram kemur í yfirlýsingu frá ráðuneytinu að ráðherra hefði þurft að fara með nýja tillögu til þingsályktunar fyrir Alþingi áður en hægt væri að friðlýsa svæðið.

Átta svæði á landinu hafa frá ágúst 2019 til ágúst 2021 verið friðlýst með þeim hætti að afturkalla friðlýsinguna.

Þessi svæði eru Jökulsá á Fjöllum, Geysir, Kerlingrafjöll, Brennisteinsfjöll, Gjástykki, Hólmsá, Jökulfall og Hvítá og Tungnaá.

Friðlýsing Jökulsár var afturkölluð í sumar og friðlýsing Gjástykkis sömuleiðis. Hinar sex hafa nú einnig verið afturkallaðar. Fram kemur í áðurnefndri yfirlýsingu að eingöngu sé um að ræða friðlýsingar á grundvelli verndarflokks verndar- og orkunýtingaráætlunar. Þær hafa ekki áhrif á friðlýsingu Geysis sem náttúruvættis eða Kerlingarfjalla sem landslagsverndarsvæðis.

Þá segir í yfirlýsingunni að ráðherra muni beina því aftur til verkefnisstjórnar að taka þessa virkjunarkosti til mats.

Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að aðalatriðið sé að enginn muni virkja á Geysi, í Kerlingarfjöllum eða innan þessara svæða.

„Í kjölfar afturkallananna munum við einfaldlega beina því til verkefnisstjórnar að taka þessa virkjunarkosti aftur til mats svo Alþingi geti tekið þá til þinglegrar meðferðar með það að lokamarkmiði að verndarsvæðin verði friðlýst aftur á lögmætan hátt þegar bætt hefur verið úr ágalla friðlýsinganna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×