Innlent

Trúir því að fólk sé að detta VG megin í kjör­klefanum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Svandís var bjartsýn áður en fyrstu tölur bárust.
Svandís var bjartsýn áður en fyrstu tölur bárust.

Svandís Svavarsdóttir formaður Vinstri grænna segist löngu hætt að vera stressuð fyrir kvöldinu. Hún segist finna það hjá kjósendum að margir hafi ákveðið að kjósa flokkinn, jafnvel á allra síðustu stundu í kjörklefanum.

Þetta kom fram í beinni útsendingu í kosningasjónvarpi Stöðvar 2 þar sem Bjarki Sigurðsson ræddi við hana í Iðnó á kosningavöku VG. Eins og flestir vita hefur flokkurinn verið að mælast undir fimm prósentum í skoðanakönnum undanfarið. Svandís segist hafa merkt það að flokkurinn væri að bæta við sig.

„Þetta er búið að vera alveg frábær barátta, ofboðslega mikl gleði. Við erum í miðjum klíðum að bygja upp grasrótina, finnum að við erum að vökva hana, finnum að þetta verða spennandi kosningar. Þetta eru þannig kosningar að við kunnum að þurfa að bíða mjög lengi eftir endanlegri niðurstöðu.“

Svandís segist bjartsýn á að VG nái manni inn. „Við sjáum að við höfum verið að hnikast upp á við, á síðustu metrunum, sumir meira að segja að ákveða sig inni í kjörklefanum. Við höfum fundið það að fólk er að detta okkar megin, mörg finna að þessi græna vinstri rödd verður að vera þarna áfram, maður heyrir það og auðvitað vonar maður að það skili sér.“

En hvað verður um VG ef flokkurinn kemst ekki inn á þing?

„Það er of snemmt að segja neitt um það. Við sjáum hvað kemur upp úr kössunum, þjóðin hefur núna orðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×