Blikar unnu Stjörnuna 3-1 í Pepsi Max deildinni í gærkvöldi og hafa þar með unnið sjö leiki í röð á gervigrasi hvort sem það eru deildarleikir eða leikir í Evrópukeppni.
Það sem meira er að markatala Blika í þessum sjö síðustu gervigrasleikjum er átján mörk í plús eða 22 mörk á móti 4. Þeir eru því búnir að skora 3,14 mörk í leik í leikjunum sjö.
Það gengur ekki eins vel á grasvöllunum því Blikar hafa ekki unnið grasleik síðan þeir sóttu sigur til Lúxemborgar í fyrstu umferð Evrópukeppninnar 8. júlí síðastliðinn. Í þeim leik lentu þeir 2-0 undir á móti Racing FC Union en tókst að komast til baka og vinna 3-2 sigur.
Blikar eru síðan án sigurs í fjórum síðustu grasleikjum sínum og meðal þeirra er fyrri leikurinn á móti Aberdeen á Laugardalsvellinum í síðustu viku. Liðin mætast síðan aftur á grasinu á Pittodrie leikvanginum á fimmtudaginn.
Blikar duttu líka út úr bikarnum eftir 2-0 tap í framlengingu á móti Keflavík á grasvellinum í Keflavík.
En þegar þeir spila á gervigrasi þá virðast fáir ráða við þá þessa dagana. Síðasti til að vinna þá á gervigrasi voru Valsmenn 16. júní síðastliðinn.
- Síðustu leikir Blika á gervigrasi 9. ágúst:
- 3-1 sigur á Stjörnunni
- 2. ágúst: 4-0 sigur á Víkingi
- 29. júlí: 2-1 sigur á Austria Vín
- 15. júlí: 2-0 sigur á Racing FC Union
- 3. júlí: 4-0 sigur á Leikni
- 27. júní: 3-2 sigur á HK
- 20. júní: 4-0 sigur á FH
- --
- Síðustu leikir Blika á náttúrulegu grasi
- 5. ágúst: 2-3 tap fyrir Aberdeen
- 25. júlí: 0-2 tap fyrir Keflavík
- 22. júlí: 1-1 jafntefli við Austria Vín
- 18. júlí: 1-1 jafntefli við KR
- 8. júlí: 3-2 sigur á Racing FC Union