Íslenski boltinn

Fengu fernu á sig frá Atla í miðju Evrópuævintýri

Sindri Sverrisson skrifar
Atli Þór Jónasson skoraði sjö mörk í Bestu deildinni fyrir HK á síðustu leiktíð.
Atli Þór Jónasson skoraði sjö mörk í Bestu deildinni fyrir HK á síðustu leiktíð. vísir/Diego

Á meðan að flest íslensk fótboltalið eru farin að huga að næstu leiktíð, eftir stutt frí, þá eru leiktíðirnar farnar að blandast saman hjá Víkingum sem mættu HK í Bose-bikarnum í kvöld.

Um var að ræða fyrsta leik í þessu vetrarmóti og nóg var af mörkum því hann fór 4-4. Framherjinn hávaxni Atli Þór Jónasson stal senunni en hann skoraði öll fjögur mörk HK-inga í leiknum.

Fyrir Víkinga skoruðu Daði Berg Jónsson, Nikolaj Hansen, Helgi Guðjonsson og Haraldur Ágúst Brynjarsson, samkvæmt frétt Fótbolta.net.

HK tókst því það sem Cercle Brugge og Borac mistókst í Sambandsdeildinni, að ná í stig gegn Víkingi, þökk sé Atla.

Víkingar eru væntanlega með hugann fyrst og fremst við Sambandsdeildina en þeir mæta þar næst sænska liðinu Djurgården, á Kópavogsvelli eftir tíu daga, og sækja svo LASK heim til Austurríkis 19. desember í síðasta leiknum fyrir útsláttarkeppni.

Víkingar hafa þegar safnað sjö stigum í Sambandsdeildinni og miklar líkur eru á að það dugi þeim til að komast að minnsta kosti í umspil um sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Það umspil er ekki fyrr en í seinni hluta febrúar og því allt útlit fyrir að tvær leiktíðir séu að fara að skarast mikið hjá Víkingum í vetur.

Á sama tíma ríkir óvissa um það hvort Arnar Gunnlaugsson verði áfram þjálfari Víkings eða taki mögulega við íslenska landsliðinu á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×