Þetta verður örugglega svolítið skrýtið kvöld fyrir landsliðsfyirliðann Helenu Sverrisdóttur sem mætir þá með liði sínu Val í Schenkerhöllina á Ásvöllum.
Haukar og Valur mætast klukkan 19.15 í kvöld í 16. umferð Domino´s deildar kvenna í körfubolta.
Helena Sverrisdóttir er eins og flestir vita, uppalin í Haukum, og hefur þrisvar sinnum orðið Íslandsmeistari með Hafnarfjarðarliðinu. Helena vann fyrstu tvo Íslandmseistaratitlana með Haukum 18 og 19 ára gömul en þann síðasta nýorðin þrítug síðasta vor. Í millitíðinni var hún í háskólanámi í Bandaríkjunum og í atvinnumennsku í Evrópu.
Helena byrjaði tímabilið í atvinnumennsku í Ungverjalandi en kom heim í október og valdi það að fara frekar í Val en að snúa aftur í Hauka.
Leikurinn í kvöld verður fyrsti leikur Helenu á Ásvöllum þar sem hún er ekki í heimaliðinu. Hún hefur spilað ófáa leiki í húsinu á sínum ferli með bæði Haukum og íslensku landsliðunum.
Helena er hinsvegar búin að mæta Haukum einu sinni með Val en fyrsti leikur hennar með Hlíðarendafélaginu var einmitt á móti Haukum á Hlíðarenda í lok október. Í þeim leik var Helena með 13 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar í sextán stiga sigri.
Valsliðið hefur unnið sex af sjö leikjum sínum með Helenu innanborðs sem er með 17,6 stig, 7,7 fráköst og 6,3 stoðsendingar að meðaltali í þeim.
Helena hefur oftast fundið sig mjög vel á Ásvöllum og var næstum því með þrennu í sautján leikjum sínum í húsinu í fyrravetur (19,9 stig - 13,8 fráköst - 9,7 stoðsendingar).
Leikurinn í kvöld verður líka fyrsti opinberi keppnisleikur Helenu á Ávöllum síðan að hún varð Íslandsmeistari þar 30. apríl í fyrra. Helena var þá með 21 stig, 19 fráköst og 10 stoðsendingar í 74-70 sigri á Val í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn.
Tveir aðrir leikir fara einnig fram í Domino´s deild kvenna í kvöld. KR og Stjarnan mætast í DHL-höllinni í Frostaskjóli og Skallagrímur fær Breiðablik í heimsókn í Borgarnes.
Körfubolti