Körfubolti

Fyrsti sigur Vals í rúman mánuð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði tíu stig gegn Hamri/Þór.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði tíu stig gegn Hamri/Þór. vísir/diego

Eftir fjögur töp í röð vann Valur 23 stiga sigur á Hamri/Þór, 82-59, í 9. umferð Bónus deildar kvenna í körfubolta í kvöld.

Illa hefur gengið hjá Val í vetur og fyrir leikinn í kvöld hafði liðið aðeins unnið tvo af átta leikjum sínum í Bónus deildinni.

Valskonur komust loks aftur á sigurbraut í kvöld með öruggum sigri á Hamars- og Þórskonum.

Alyssa Cerino var atkvæðamest hjá Val með 24 stig og tíu fráköst. Jiselle Thomas skoraði tuttugu stig, tók sjö fráköst og gaf níu stoðsendingar og Fatoumata Jallow lagði sautján stig í púkkið af bekknum.

Fátt var um fína drætti hjá Hamri/Þór í kvöld. Abby Beeman var stigahæst með fjórtán stig. Hún tók einnig níu fráköst og gaf átta stoðsendingar. Jóhanna Ýr Ágústsdóttir skoraði þrettán stig.

Hamar/Þór hefur nú tapað fjórum leikjum í röð. Liðið er með sex stig líkt og Valur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×