Formúla 1

Dagar Perez hjá Red Bull virðast taldir

Aron Guðmundsson skrifar
Sergio Perez ræðir hér við liðsstjóra Red Bull Racing liðsins, Christian Horner, í Katar um síðastliðna helgi.
Sergio Perez ræðir hér við liðsstjóra Red Bull Racing liðsins, Christian Horner, í Katar um síðastliðna helgi. Vísir/Getty

Það bendir allt til þess að dagar Mexíkóans Sergio Perez hjá Red Bull ra­cing verði taldir eftir loka­keppni tíma­bilsins í Abu Dhabi um komandi helgi.

Perex hefur engan vegin náð sér á strik á góðum bíl Red Bull Ra­cing og finnur sig í 8.sæti í stiga­keppni ökuþóra með aðeins 152 stig. Þar er hann á eftir liðs­félaga sínum Max Ver­stappen sem hefur tryggt sér heims­meistara­titilinn sem og ökuþórum McLaren, Ferrari og Mercedes.

Red Bull Ra­cing á ekki lengur mögu­leika á því að verja heims­meistara­titil sinn í flokki bíla­smiða og er auðvelt að benda á þau fáu stig sem Perez hefur skilað inn sem or­saka­vald en Ver­stappen hefur tryggt sér og Red Bull Ra­cing 429 stig.

Nú bendir allt til þess að Red Bull Ra­cing muni gera breytingar og eru taldar yfir­gnæfandi líkur á því að Perez verði látinn fara eftir tíma­bilið. Um­mæli liðs­stjórans Christian Horn­er nú í að­draganda síðustu keppnis­helgarinnar hefur ekki dregið úr þeim líkum.

„Staðan sem við erum í er álíka sárs­auka­full fyrir hann og okkur,“ sagði Horn­er í sam­tali við Viaplay. „Við veitum honum allan þann stuðning sem að þarf þar til að kemur að köflótta flagginu í Abu Dhabi. Perez nýtur þess ekki að vera í þeirri stöðu að slúðrað sé um framtíð hans í hverri viku. Hann er hins vegar nógu gamall og reyndur til þess að átta sig á stöðunni. Sjáum hvar við verðum eftir Abu Dhabi.“

Í tengslum við mögu­legt brott­hvarf Perez er því haldið fram að annar hvor ökuþóra systur­liðs Red Bull Ra­cing, RB liðsins, muni fylla upp í sæti Perez. Það yrðu þá annað hvort Yuki Tsunoda eða Liam Law­son sem myndu fá það sæti nema að ein­hverjar óvæntar vendingar myndu eiga sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×