Skoðun

Al­var­legar af­leiðingar kyn­ferðis­legrar á­reitni á vinnu­stöðum

Dagný Aradóttir Pind skrifar

Nýjar niðurstöður úr stóra rannsóknarverkefninu Áfallasaga kvenna fjalla um afleiðingar áreitni og ofbeldi í vinnu. Áfallasaga kvenna er tímamótarannsókn þar sem allar konur á Íslandi fengu tækifæri til að taka þátt og segja frá margs konar reynslu sinni á lífsleiðinni. Fyrri niðurstöður rannsóknarinnar sýna að 40% kvenna hafa orðið fyrir ofbeldi á lífsleiðinni og 32% kvenna hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað.

Nýjustu niðurstöðurnar leiða í ljós að þær konur sem hafa orðið fyrir áreitni eða ofbeldi á vinnustað eru líklegri til að sýna einkenni alvarlegra heilsufarsvandamála, bæði andlegra og líkamlegra. Afleiðingarnar eru til að mynda auknar líkur á þunglyndi, kvíða, félagsfælni, sjálfsskaða, fíkn, svefnvandamálum og ýmsum líkamlegum einkennum. 

Algengast var að konur upplifðu þunglyndi, kvíða og alvarleg svefnvandamál. Þolendur ofbeldis eru einnig mun líklegri til að taka löng veikindaleyfi frá vinnu eða hætta störfum. Að verða fyrir áreitni eða ofbeldi á vinnustað eykur því líkur á heilsutapi og tekjutapi með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á einstaklinginn, fjölskylduna, vinnustaðinn og samfélagið allt.

Rannsóknin sýnir einnig þó nokkurn mun á milli aldurshópa varðandi afleiðingar áreitni og ofbeldi á vinnustað. Yngstu konurnar, 18-24 ára, voru líklegastar til að upplifa kvíða, konur á aldrinum 35-44 ára þunglyndi og alvarleg svefnvandamál komu helst fram hjá konum á aldrinum 45-69 ára. Konur á aldrinum 45-54 ára voru líklegastar til að vera með alvarleg líkamleg einkenni. Áhugavert er að setja þessar niðurstöður í samhengi við örorku á Íslandi, en konur yfir 50 ára eru mjög fjölmennar í hópi örorkulífeyrisþega og 25% kvenna á aldrinum 63-66 ára eru á örorkulífeyri. Tryggingastofnun ríkisins hyggst á næstunni framkvæma rannsókn á ástæðum þess.

Kröfur BSRB og Kvennaverkfalls

BSRB hefur lengi barist fyrir því að stjórnvöld og vinnustaðir taki fast á málaflokknum og útrými þessum faraldri kynferðisofbeldis og áreitni. Um 100.000 konur og kvár sem söfnuðust saman á Arnarhóli og víða um land 24. október 2023 gerðu einnig þá kröfu. Heildarsamtök launafólks og VIRK hafa undanfarið unnið að betri þjónustu fyrir þolendur áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Starfsfólk stéttarfélaga hefur fengið markvissa fræðslu og VIRK býður þolendum upp á þjónustu sem má kalla sálræna fyrstu hjálp. Stjórnvöld hafa einnig tekið einhver skref í rétta og hefur Vinnueftirlitið til að mynda aukið áherslu á málaflokkinn á síðustu misserum, í góðu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins.

Atvinnurekendur bera ábyrgð á því að vinnuumhverfi sé öruggt og heilsusamlegt og á það jafnt við að vernda starfsfólk gegn slysum og hættulegum efnum og áreitni og ofbeldi hvort sem það er af hálfu samstarfsfólks eða einstaklinga sem starfsfólk þarf að eiga í samskiptum við vegna vinnunnar. Markvissa fræðslu þarf inn á alla vinnustaði, bæði til stjórnenda og starfsfólks og slík fræðsla þarf að fara fram reglulega. Eins þurfa stjórnendur að gefa skýr skilaboð um að áreitni og ofbeldi verði ekki liðið og taka þarf á málum af festu þegar áreitni eða grunur um slíkt kemur upp þar sem hagsmunir þolanda og hættan á endurtekningu eru sett í forgrunn.

Gerendur verða að hætta að beita ofbeldi

Fullu jafnrétti verður aldrei náð fyrr en konur eru öruggar og frjálsar frá ofbeldi og áreitni eða hættu á að verða fyrir slíku, á vinnustöðum, heimili eða almannarýminu. Rót ofbeldis er misrétti og valdaójafnvægi kynjanna og það þarf fjármagn og kröftugar aðgerðir til að útrýma ofbeldi gegn konum. Á undaförnum árum hefur úrræðum til að styðja við bakið á þolendum fjölgað og má segja að kastljósið hafi beinst að þolendum en síður að gerendum. Það er sjálfsagt réttlæti að þolendur fái stuðning, aðstoð og úrlausn mála og vinna þarf mun betur að því að afleiðingarnar séu ekki heilsu- og tekjutap. Staðreyndin er hins vegar sú að ofbeldi og áreitni verður aldrei útrýmt nema við förum að beina sjónum okkar að gerendum. Lykillinn að lausninni felst ekki eingöngu í því að gera betur fyrir þolendur, heldur að tryggja að gerendur hætti að beita ofbeldi. Á vinnustöðum eru það atvinnurekendur sem bera ábyrgð á því.

Höfundur er lögfræðingur hjá BSRB. 




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×