Skoðun

Te­ne­ferðir seðla­banka­stjóra og hamsturinn ég

Karl Guðlaugsson skrifar

Heildarskuldir mínar og litla fyrirtækisins míns sem ég rek voru 24 milljónir árið 2007. Ég væri skuldlaus maður í dag ef ekki hefði komið til hrunsins árið 2008 og enduðu skuldir mínar í 45 milljónum haustið 2008. En skítt með það.

Ég er eins og aðrir hamstrar í millistétt á Íslandi sem búa við íslenska krónu og var ég búinn að borga skuldir mínar fyrir ári síðan niður í 35 milljónir þegar ég ákvað að fara í smá framkvæmdir í húsinu mínu sem metið er á 150 milljónir. Heildarskuldir mínar og litla fyrirtækisins míns voru því 45 milljónir sumarið 2021 og af þeim greiddi ég 180 þúsund krónur á mánuði. Síðasta afborgun lánsins í nóvember 2022 hljóðaði uppá 290 þúsund krónur á mánuði sem er hækkun upp á 110 þúsund á mánuði, á rétt rúmu ári! Ég hef engar áhyggjur af mér hamstrinum, ég held bara áfram að hlaupa fyrir bankann minn sem er með tugi milljarða í vaxtatekjur á þessu ári. Ég þarf ekki að eiga tvo bíla og sel því annan þeirra, ég mun fara sjaldnar út að borða og veiti mér ekki lengur þá ánægju að renna við hjá þeim Sante-mönnum til að kaupa góð vín og fer einni ferðinni sjaldnar á gönguskíði norður. En ég hef áhyggjur af unga fólkinu sem tók jafnhátt lán og ég til að koma sér þaki yfir höfuðið. Hvorki ég, né þetta unga fólk mun geta hitt seðlabankastjóra og peningastefnunefnd Seðlabankans á Tenerife á næsta ári. Nei í alvöru, hættið að reikna ykkur út í hið óendanlega í excel-skjalinu ykkar og farið að nota heilann og hugsa.

Höfundur er tannlæknir og MPM.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×