Skoðun

Ofneysla hátekjufólks er efnahagsvandinn

Stefán Ólafsson skrifar

Seðlabankinn réttlætir enn eina óþörfu hækkun stýrivaxtanna með rökum um að einkaneysla sé of mikil. Kaupmáttur sé of mikill. Of margir fari of oft til Tenerife. Of miklu sé eytt erlendis. Viðskiptahalli sé því of mikill og gengi krónunnar hefur lækkað (eða öllu heldur Seðlabankinn hefur leyft genginu að lækka – sem svo eykur verðbólgu enn frekar).

Þetta er efnahagsvandinn í hnotskurn, segir Seðlabankastjóri nú. Því þurfi að draga kaupmátt almennings niður með hækkun stýrivaxta (sjá hér).

Stýrivaxtahækkanir á árinu hafa þegar gengið út í öfgar. Við erum með þrisvar til fimm sinnum hærri stýrivexti en grannþjóðir okkar sem eru jafnvel með meiri verðbólgu en við (ef húsnæðisliðurinn er undanskilinn). Þetta hefur lítil sem engin áhrif haft til að lækka verðbólgu, sem að tveimur þriðju hlutum er innflutt (sjá hér). Það er ekki heil brú í þessu hjá Seðlabankanum!

Er skuldugt lágtekjufólk sökudólgarnir?

Er það fólk úr lægri tekjuhópunum sem er að þjaka þjóðarbúskapinn með ofneyslu? Fólkið sem á í basli við að ná endum saman?

Auðvitað ekki. Það er fólkið sem er með hærri tekjurnar og á meiri eignir sem skapar vandann. Það eru þau sem fara fimm sinnum til Tenerife á ári. Síðan tekur Seðlabankinn að sér að leggja verulega auknar vaxtabyrðar á skuldugt fólk í lægri tekjuhópunum – til að draga úr neyslu þeirra. Það er verið að hengja verkafólk fyrir hátekjufólk.

Auknar byrðar almenns launafólks, sem glímir þegar við óhóflegan húsnæðiskostnað og stórlega minnkandi húsnæðisstuðning af vaxtabótum, mun ekki draga úr ofneyslu efnaðri hluta þjóðarinnar.

Það sem væri eðlilegra að gera væri að setja strax á aukna skatta á hærri tekjuhópa og stóreignafólk, til að hemja ofneyslu þeirra sem eru að skapa þennan vanda. Jafnvel mætti takmarka utanlandsferðir eða skattleggja þær sérstaklega til að hemja óhófið.

Þetta segir okkur líka hvaða stefna verður að ráða við frágang kjarasamninga. Hækkanir launa þurfa að verða meiri í lægri launahópum og ríkið þarf að lækka skatta á lægri tekjuhópa og auka húsnæðisstuðning stórlega og aðrar tekjutilfærslur til heimila.

Efnaða fólkið sem er að eyða svo miklu að til vandræða horfir getur auðvitað borið hærri skatta.

Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×