Bóndi leiddi ísbjörninn til slátrunar

Snorri Rafn Hallsson skrifar
bóndi

Ármann og Dusty mættust í Inferno sem var viss áhætta fyrir Ármann enda Dusty ansi góðir í því. Hnífalotan féll með Ármanni sem byrjaði í vörn.

Fyrsta lotan var glæsileg þar sem Vargur hafði betur gegn StebbaC0C0 og tryggði Ármanni sitt fyrsta stig í leiknum. En þau áttu þó ekki eftir að verða mörg í viðbót. Dusty hélt spilunum þétt að sér og vann næstu þrjár lotur á snyrtilegan hátt.

Ármann minnkaði muninn í 3–2 en þá tók við 10 lotu runa frá Dusty. StebbiC0C0 var með flestar fellur í upphafi leiks en hæg og rólega sigldi Bóndi fram úr honum og slátraði fyrrum liðsfélögum sínum úr Ármanni. Þannig unnust loturnar á fellum en ekki á því að setja sprengjuna niður. Dusty ofmetnaðist aldrei heldur lék öruggt og yfirvegað.

Staða í hálfleik: Ármann 2 – 13 Dusty

Ármann náði aðeins einu stigi í síðari hálfleik og StebbiC0C0 átti því ekki erfitt með að sigla sigrinum heim fyrir sitt lið eftir einungis 19 lotur.

Lokastaða: Ármann 3 – 16 Dusty

Liðin á toppnum eru því farin að skiljast að, Dusty heldur toppsætinu í deildinni en Ármann er engu að síður í góðri stöðu þrátt fyrir stórtap.

Næstu leikir liðanna:

  • Dusty – TEN5ION, þriðjudaginn 4/10, klukkan 19:30
  • Fylkir – Ármann, þriðjudaginn 4/10, klukkan 20:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir