Eiríkur segir möguleika á því að vinnumarkaðurinn skiptist í tvennt og láglaunastörf skapist þar sem fólk kunni ekki íslensku en enska verði aðal samskiptamálið. Á meðan verði Íslendingar í betur launuðum störfum.
„En þeir munu samt náttúrulega þurfa að nota ensku mjög mikið til samskiptum við aðra, við þetta erlenda vinnuafl ofan á þá ensku sem þegar er notuð. Þannig að ég held það sé alveg ljóst að ef við viljum halda íslenskunni áfram þá verðum við að gera eitthvað,“ segir Eiríkur.
Hann segir bráðnauðsynlegt að efla íslenskukennsluna fyrir innflytjendur og bjóða þurfi upp á meira og betra kennsluefni ásamt námskeiðum.
„Það verður að gera fólki kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma og svo framvegis,“ segir Eiríkur.
Hann segir ýmislegt hægt að gera fyrir fólk sem komi til landsins til þess að vinna í styttri tíma eða fólk sem bara nenni hreinlega ekki að læra jafn erfitt tungumál og íslenskuna.
„Það er hægt að vera með svona starfstengd nám þar sem að fólk lærir orðaforða sem tengist því sem að það er að vinna við, lærir ekki íslensku svona alveg fullkomlega. En svo þar fyrir utan þá er náttúrulega ljóst að enska er komin til að vera, hún verður áfram hluti af íslensku málsamfélagi og við þurfum að taka það til umræðu,“ segir Eiríkur.
Ákveða þurfi hvar og í hvaða tilfellum enska sé töluð og hvar íslenskan verði að vera.
Eiríkur segist bjartsýnn á að átak hvað þetta varðar fari í gang, en við eigum engan annan kost.
„Ég bara treysti því vegna þess að ég held við eigum engan annan kost, ef við viljum virkilega halda í íslenskuna sem ég held að fólk vilji nú náttúrulega,“ segir Eiríkur að lokum.
Viðtalið við Eirík má sjá í spilaranum hér að ofan en það hefst á 01:54