Matur

Götubitahátíð Íslands haldin við mikla viðhöfn um helgina

Árni Sæberg skrifar
Hátíðin var haldin á Miðbakkanum árið 2019.
Hátíðin var haldin á Miðbakkanum árið 2019. Róbert Aron

Götubitahátíð Íslands 2021 og stærsta götubitakeppni í heimi European Street Food Awards verða haldnar í Hljómskálagarðinum í Reykjavík dagana 17.-18. júlí næstkomandi.

Á hátíðinni verður að finna alla helstu matarvagna og götubitasöluaðila á Íslandi. Samhliða hátíðinni verður haldin keppnin Besti Götubiti Íslands 2021 í samstarfi við European Street Food Awards en það er jafnframt stærsta götubitakeppni í heiminum í dag. 

Keppnin er haldin víðsvegar um Evrópu og mun Ísland vera með fulltrúa í lokakeppninni. Vegna ástandsins í heiminum hefur hvorki staðsetning né dagsetning lokakeppninnar verið ákveðin. Árið 2019 fór grænkeraveitingastaðurinn Jömm fyrir hönd Íslands á lokakeppnina sem þá var haldin í Malmö.

Mikil spenna fyrir hátíðinni

Róbert Aron Magnússon forsvarsmaður hátíðarinnar segir hana aðallega vera hugsaða upp á stemninguna en að söluaðilar leggi þó mikinn metnað í keppnina sjálfa.

Róbert segir einnig að spáin fyrir helgina lofi góðu, miðað við Reykjavík allavega, og að allir sem að hátíðinni koma séu gríðarlega spenntir fyrir henni.

Keppt verður í nokkrum skemmtilegum flokkum – Besti grænmetisrétturinn, Besti smábitinn, Götubiti Fólksins, Besta framsetningin og síðast en ekki síst Besti Götubitinn 2021.

Einvalalið dómara velur sigurvegara

Dómnefndina í ár skipa Ólafur Örn Ólafsson, veitingamaður og matgæðingur, Binni Löve áhrifavaldur, Shruthi Basappa, matarskríbent hjá Reykjavík Grapevine, og Helgi Svavar Helgason, trymbill og matgæðingur.

Niðurstaða í keppninni Götubiti fólksins veltur á fólkinu sem sækir hátíðina en kosið er um sigurvegara í rafrænni kosningu.

Sigurvegarar keppninnar í fyrra voru Silli kokkur í flokkunum Besti götubitinn 2020 og Götubiti fólksins og Just Wingin' it í flokkinum Besti smábitinn.

Á hátíðinni verða yfir 20 söluaðilar, uppblásinn írskur pöbb, bjórbíllinn, plötsnúðar, Dj Karítas, Krónuhjólið, Símbíllinn, leiktæki fyrir börn, sex hoppukastalar, vatnaboltar og Nerfvöllur.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.