Matur

Ostakaka með kanileplum, kökumulningi og karamellu

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ostakaka Evu Laufeyjar er sniðugur kostur í þessu haustveðri.
Ostakaka Evu Laufeyjar er sniðugur kostur í þessu haustveðri. Vísir/Eva Laufey

Flestir á höfuðborgarsvæðinu taka því rólega þessa helgi að fyrirmælum þríeykisins. Við mælum með því að þeir sem ætla að baka um helgina, skoði uppskriftirnar okkar hér á Vísi. Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir setti saman þessa dásamlegu uppskrift. 

„Bökuð ostakaka með kanileplum og crumble, borin fram með saltaðri karamellusósu. Fullkomin í haustveðrinu,“ segir Eva Laufey um kökuna. Uppskriftina má finna hér fyrir neðan. 

Kexbotn

  • 230 Lu Bastogne kexkökur.
  • 80 g smjör, brætt.

Aðferð:

  • Forhitið ofninn í 150°C.
  • Setjið kexkökurnar í matvinnsluvél og maukið fínt, hellið brædda smjörinu saman við og hrærið saman.
  • Klæðið hringlaga form með smjörpappír (sjáið aðferð á Instagram) og hellið blöndunni í formið, sléttið úr með skeið og þrýstið blöndunni í formið.
  • Bakið við 150°C í 10 mínútur.

Rjómostafylling með eplabitum

  • 700 g hreinn rjómaostur
  • 100 g sykur
  • 3 egg
  • 2 tsk vanilludropar
  • 2 epli
  • 2 tsk sykur + 1 tsk kanill
Eva Laufey

Aðferð:

  • Þeytið rjómaostinn þar til hann er mjúkur, skafið meðfram hliðum og þeytið áfram.
  • Bætið sykrinum smám saman við og þeytið vel.
  • Bætið einu og einu eggi út í og þeytið vel á milli.
  • Í lokin fara vanilludropar út í fyllinguna.
  • Hellið fyllingunni ofan á kexbotninn.
  • Afhýðið epli og skerið í litla bita, setjið í skál og stráið kanilsykri yfir.
  • Dreifið eplabitum yfir fyllinguna.
  • Setjið deigmulning yfir kökuna og bakið við 150°C í 40 mínútur.
  • Kælið kökuna mjög vel og það er tilvalið að gera kökuna deginum áður en þið ætlið að bera hana fram. Hún þarf að vera köld þegar þið losið hana úr forminu og best er að nota smelluform.
  • Áður en þið berið kökuna fram þá hellið þið vel af saltaðri karamellusósu yfir.

Kökumulningur:

  • 60 g smjör
  • 50 g hveiti
  • 50 g púðursykur
  • 25 g haframjöl

Aðferð:

Setjið öll hráefnin í skál og notið hendurnar til þess að útbúa mulninginn. Dreifið yfir kökuna áður en hún fer inn í ofn.

Söltuð karamellusósa:

  • 2 dl sykur
  • 3 msk smjör
  • 1-2 dl rjómi
  • Sjávarsalt á hnífsoddi

Aðferð:

  • Hitið sykur á pönnu, um leið og hann byrjar að bráðna lækkið þá hitann og bíðið þar til hann er allur bráðinn (ekki snerta hann á meðan).
  • Bætið smjörinu út á pönnuna og hrærið stöðugt, hellið rjómanum út smám saman og haldið áfram að hræra. Í lokin bætið þið sjávarsalti saman við og hellið sósunni í ílát.
  • Leyfið sósunni að standa í svolitla stund áður en hún er borin fram en þá þykknar sósan og það verður betra að hella henni yfir kökuna.

Eva Laufey er dugleg að birta uppskriftir, hugmyndir og góð ráð á Instagram


Tengdar fréttir

Einfaldar en ómótstæðilegar súkkulaðibitakökur

Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir sýnir reglulega frá bakstri og eldamennsku á Instagram og er þar með yfir 28 þúsund fylgjendur. Um helgina ákvað hún að fá fólk með sér í bakstur og birti uppskriftina deginum áður án þess að taka fram hvað hún ætlaði að baka

Þau hlutu Edduverðlaunin árið 2020

Edduverðlaunin 2020, uppskeruhátíð íslenska sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðarins sem ÍKSA stendur fyrir árlega voru veitt í kvöld.








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.