Skoðun

Af­mælis­gjöf hjúkrunar­fræðingsins

Guðbjörg Pálsdóttir skrifar

Þau eru margvísleg tímamótin um þessar mundir sem tengjast hjúkrunarfræðingum, sum gleðileg, önnur ekki. Í dag klukkan 18:50 eru slétt fimm ár frá því að þáverandi ríkisstjórn ákvað að setja lög á verkfall hjúkrunarfræðinga, sem rétt eins og nú, voru að berjast fyrir mannsæmandi kjörum. Þá voru 100 ár frá því að konur fengu kosningarétt. Ekki var hún falleg sú afmælisgjöf.

Fimm árum síðar hefur ekkert breyst hjá hjúkrunarfræðingum sem enn berjast fyrir því að fá sanngjörn laun fyrir sína vinnu, sitja fund eftir fund með samninganefnd ríkisins og í fjölmiðlum hljómar sami söngur og þá frá sumum; hvort ekki þurfi bara að setja lög á hjúkrunarfræðinga. Gleymd er gríðarlega vinna hjúkrunarfræðinga í Covid-19 faraldrinum og þess í stað talað fjálglega um að ófaglærðir geti nú alveg sinnt sýnatöku þeirra fáu ferðamanna sem hingað koma. Hamrað er á því að ekki sé hægt að borga hjúkrunarfræðingum mannsæmandi laun vegna Lífskjarasamninga, á sama tíma og almenningur horfir upp á þingmenn, ráðherra og æðstu embættismenn þjóðarinnar þiggja tugprósenta launahækkanir. Og já, því er sífellt kastað út í umræðuna að hjúkrunarfræðingar geti alveg hækkað launin sín með því að vinna meiri aukavinnu.

Auðvitað eiga hjúkrunarfræðingar bara að vinna líka á kvöldin til að fá mannsæmandi laun þegar flestir aðrir sameinast við matarborðið með fjölskyldum sínum. Auðvitað eiga hjúkrunarfræðingar að vinna um helgar til að eiga fyrir útgjöldum heimilisins þegar aðrar fjölskyldur fara út á land til að nýta ferðagjöf stjórnvalda. Auðvitað eiga hjúkrunarfræðingar að vinna á hátíðisdögum til að ná öðrum háskólamenntuðum starfsstéttum í launum í stað þess að samfagna með ættingjum og vinum.

Þess er svo minnst í ár að 200 ár eru frá fæðingu Florence Nightingale og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hvetur þjóðir heims til að fylkja sér um hjúkrunarfræðinga og minnast mikilvægi starfa þeirra. Hvaða afmælisgjöf ætli hjúkrunarfræðingar fái þá í ár? Mannsæmandi laun eða sömu afmælisgjöf og fyrir fimm árum?

Höfundur er formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×