Skoðun

Blekkingarleikur formanns VR

Gylfi Arnbjörnsson skrifar
Það er alvarlegt þegar stærsta aðildarfélag Alþýðusambands Íslands lýsir vantrausti á forseta samtakanna. Það er enn alvarlegra þegar það er gert á forsendum sem beinlínis eru rangar og stjórnarmenn þannig blekktir með ósannindum.

Um það gerði formaður VR sig sekan þegar hann fékk stjórn sína til að samþykkja tillögu um vantraust á forseta ASÍ. Í tölvupósti formannsins til stjórnarinnar sagði m.a.: „Nú hefur forseti ASÍ sent tölvupóst á miðstjórn og samninganefnd ASÍ um að hann muni leiða viðræður við stjórnvöld í gegnum þjóðhagsráð án sérstaks umboðs frá félögunum.“

Þarna vísar hann til tölvupósts sem ég sendi miðstjórn ASÍ nýlega um fyrirhugaðan fund með ríkisstjórninni þar sem ég hugðist kynna stjórnvöldum viðhorf ASÍ til fyrirliggjandi skattahugmynda. Þar sagði ég m.a.:

„Þar sem ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um samstarf landssambanda og stærstu félaga á grundvelli samstarfssamningsins varðandi næstu samningalotu, er ljóst að Samninganefndin hefur ekkert umboð á hendi og þar af leiðandi ekki viðræðunefndin heldur. Samskipti við stjórnvöld eru hins vegar almennt á borði miðstjórnar ASÍ skv. bæði samþykktum ASÍ og þeirri verkaskiptingu sem er milli ASÍ og aðildarfélaganna. Ég mun því mæta á fyrrgreindan fund með forsætisráðherra ásamt framkvæmdastjóra ASÍ og gera grein fyrir niðurstöðum hagdeildar ASÍ á þróun skattkerfisins m.t.t. mismunandi tekjuhópa. ... Ég treysti því að um þessa skipan mála geti verið sátt og mun ég gera nánari grein fyrir fundinum á næsta miðstjórnarfundi.“

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig hægt er að lesa út úr þessum texta að ég hafi ákveðið að fara gegn ákvörðun miðstjórnar ASÍ, sem að minni tillögu samþykkti fyrir nokkru síðan að setjast ekki í Þjóðhagsráð. Blekkingarleikur formanns VR, í þeim tilgangi að fá stjórn stærsta aðildarfélags ASÍ til að samþykkja vantraust á forseta ASÍ, er grafalvarlegur og gróf aðför að þeirri samstöðu sem verið hefur helsti styrkur verkalýðshreyfingarinnar í meira en hundrað ár. Tölvupóst minn til miðstjórnar ASÍ hef ég sent í fullri lengd til stjórnarmanna VR og birt sömuleiðis á vef ASÍ.

Höfundur er forseti ASÍ




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×