Matur

Í eld­húsi Evu: Sushi með djúp­steiktum humar og bragð­mikilli chilisósu

Eva Laufey skrifar
Rúllan er skreytt með lárperu, chili-majónesi og kóríander
Rúllan er skreytt með lárperu, chili-majónesi og kóríander Eva Laufey

Í þættinum Í eldhúsi Evu, sem er á dagskrá Stöðvar 2 á fimmtudögum, töfra ég fram dýrindis kræsingar. Hér er uppskrift að guðdómlegu Sushi með djúp­steiktum humar og bragð­mikilli chilisósu.

Sushi með djúp­steiktum humar og bragð­mikilli chilisósu

600 g skelflettur humar

Tempura-deig

Ferskur aspas, soðinn í söltu vatni í 3 mínútur

Agúrka, skorin í þunnar og langar sneiðar

Rauð paprika, skorin þunnar og langar sneiðar

Lárpera

Ferskur kóríander

Chili-majónes

Pikklað engifer

Wasabi-mauk

Sojasósa

Nori-blöð

Sushi-hrísgrjón

350 g sushi-hrísgrjón

7 ½ dl vatn

Salt

Hrísgrjónaedik

1 tsk. sykur

Skolið hrísgrjónin mjög vel, mér finnst best að skola þau í góðu sigti. Það tekur svolitla stund eða um 5 – 7 mínútur. Leggið hrísgrjónin í bleyti í köldu vatni í um það bil tvær klukkustundir, skiptið um vatn 2 – 3 sinnum.

Setjið hrísgrjónin út í kalt vatn í þykkbotna pott og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann þannig að rétt malli og sjóðið í 20 mínútur við lægsta suðuhita.

Takið pottinn af hitanum og hafið lok á. Látið standa í 15mínútur áður en hrísgrjónin eru notuð til sushi-gerðar.

Setjið hrísgrjónin í pappírsklædda ofnplötu og hellið ediksblöndu yfir (blandið saman hrísgrjónaediki og sykri).

Blandið vel saman og leyfið grjónunum að kólna alveg áður en þið notið þau.



Humar tempura

130 g hveiti

½ tsk. lyftiduft

200 ml sódavatn

Salt og pipar, um ½ tsk. samtals af hvoru

Djúpsteikingarolía

Blandið öllum hráefnum saman í skál og hitið olíu í potti (um 500 ml af olíu). Þerrið humarinn afar vel svo það fari ekki umfram vökvi í deigið, dýfið humrinum varlega ofan í deigið og svo beint í olíuna. Djúpsteikið humarinn í nokkrar mínútur eða þar til hann er orðinn gullinbrúnn. Setjið humarinn beint á eldhúspappír þegar hann er tilbúinn.



Chili majónes

200 g japanskt majónes

2 – 3 msk. siracha-sósa

Salt og pipar

Skvetta af límónusafa

Setjið öll hráefni í skál og hrærið vel saman þar til sósan er silkimjúk.

Samsetning: Dreifið hrísgrjónum yfir nori-blað og snúið strax við, setjið agúrku, aspas, humar, papriku og smávegis af kóríander ofan á nori blaðið og rúllið upp, varlega. Þegar þið hafið náð að mynda góða rúllu þá skerið þið lárperu afar þunnt sem þið skreytið rúlluna með ásamt því að dreifa vel af chili-majónesinu yfir. Njótið strax!








×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.