Golf

Meiddist við að elda jólasteikina og missir af fyrstu mótum ársins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jólasteikin situr lengur í sumum en öðrum.
Jólasteikin situr lengur í sumum en öðrum. Kevin C. Cox/Getty Images for The Showdown

Scottie Scheffler, efsti maður heimslistans í golfi, verður frá keppni fyrstu vikur nýs árs eftir að hafa slasað sig við að elda jólasteikina í ár.

Scheffler hefur dregið sig úr keppni á The Sentry, fyrsta móti ársins 2025, sem fram fer á Hawaii helgina 2.-5. janúar. Þá er einnig búist við því að hann missi af Sony Open, sem einnig fer fram á Hawaii, viku síðar, en hann verður líklega mættur aftur til keppni á American Express Championship í Kaliforníu sem hefst 16. janúar.

Meiðslin sem halda Scheffler frá keppni eru því ekki alvarleg, en þau eru í það minnsta skondin. Scheffler slasaði sig við eldamennsku, nánar tiltekið þegar hann var að undirbúa jólasteikina.

„Á jóladag, þegar Scottie var að undirbúa kvöldmatinn, fékk hann skurð í lófa hægri handar er hann skar sig á glerbroti,“ segir í yfirlýsingu frá Blake Smith, umboðsmanni Schefflers.

„Lítil glerbrot urðu eftir í lófa hans og hann þarf því á skurðaðgerð að halda. Honum hefur verið sagt að hann ætti að vera búinn að ná sér að fullu eftir þrjár til fjórar vikur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×