Handbolti

Svíar tóku fimmta sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kristín Þorleifsdóttir er í stóru hlutverki í sænska liðinu.
Kristín Þorleifsdóttir er í stóru hlutverki í sænska liðinu. epa/ALEX PLAVEVSKI

Svíþjóð vann Holland, 33-32, í leiknum um 5. sætið á EM í handbolta kvenna í dag. Emma Lindqvist var hetja Svía en hún skoraði þrjú af síðustu fjórum þeirra, þar á meðal sigurmarkið.

Lindqvist skoraði átta mörk í leiknum líkt og Jamina Roberts. Linn Blohm gerði svo fimm mörk. Jessica Ryde átti góða innkomu í sænska markið og varði fjögur af þeim átta skotum sem hún fékk á sig.

Leikurinn var gríðarlega jafn en aldrei munaði meiru en tveimur mörkum á liðunum. Staðan í hálfleik var jöfn, 15-15.

Liðin héldust áfram í hendur, allt til loka. Merel Freriks kom Hollendingum í 29-31 en Svíar jöfnuðu með mörkum frá Lindqvist og Blohm. Lindqvist kom sænska liðinu svo yfir, 32-31. Freriks jafnaði en Lindqvist skoraði svo það sem reyndist vera sigurmark Svía þegar þrjár mínútur voru eftir, 33-32.

Freriks skoraði átta mörk fyrir Hollendinga en Dione Housheer var markahæst með níu mörk. Markverðir Hollands vörðu aðeins samtals átta skot en sænsku markverðirnir þrettán.

Kristín Þorleifsdóttir skoraði eitt mark fyrir Svíþjóð sem endaði einnig í 5. sæti á síðasta Evrópumóti. Árið var nokkuð gott hjá Svíum en þeir enduðu í 4. sæti á Ólympíuleikunum í París. Á HM fyrir ári varð Svíþjóð svo einnig í 4. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×