Enski boltinn

Salah leik­maður mánaðarins í sjötta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah skoraði fjögur mörk í nóvember.
Mohamed Salah skoraði fjögur mörk í nóvember. getty/Justin Setterfield

Liverpool-maðurinn Mohamed Salah var valinn leikmaður nóvember-mánaðar í ensku úrvalsdeildinni.

Þetta er í sjötta sinn sem Salah fær þessi verðlaun en aðeins Sergio Agüero og Harry Kane hafa fengið þau oftar, eða sjö sinnum. Salah var einnig valinn besti leikmaðurinn í nóvember 2017, febrúar og mars 2018, október 2021 og október 2023.

Salah skoraði í öllum þremur leikjum Liverpool í nóvember, alls fjögur mörk. Rauði herinn vann alla þrjá leikina í nóvember og Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, var valinn stjóri mánaðarins.

Salah er markahæstur í ensku úrvalsdeildinni ásamt Erling Haaland hjá Manchester City. Þeir hafa báðir skorað þrettán mörk. Salah hefur einnig gefið átta stoðsendingar og því komið með beinum hætti að 21 marki í fjórtán leikjum í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool er með fjögurra stiga forskot á Chelsea á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og á leik til góða. Næsti leikur Liverpool er gegn Fulham á Anfield á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×