Fótbolti

Ís­land í riðli með Frökkum eða Króötum

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið spilar á nýju, blönduðu grasi á Laugardalsvelli, í heimaleikjum sínum í undankeppni HM.
Íslenska landsliðið spilar á nýju, blönduðu grasi á Laugardalsvelli, í heimaleikjum sínum í undankeppni HM. vísir/Hulda Margrét

Ísland verður í fjögurra liða riðli í undankeppni HM karla í fótbolta. Erfiðasti mótherji liðsins verður annað hvort Frakkland eða Króatía.

Það skýrist ekki fyrr en eftir einvígi Frakklands og Króatíu í 8-liða úrslitum Þjóðadeildarinnar í mars hvort þessara liða verður í riðli með Íslandi. Sigurliðið verður í riðli Íslands.

Ísland fékk svo Úkraínu úr öðrum styrkleikaflokki, og loks Aserbaísjan úr fjórða flokknum. Efsta lið riðilsins kemst beint á HM og liðið í 2. sæti í umspil sem fram fer í mars 2026.

Ísland mun hefja sína undankeppni í september og henni lýkur í nóvember. Fram að því eru umspilsleikir við Kósovó í Þjóðadeildinni í lok mars, og væntanlega vináttulandsleikir í júní.

Ísland var í þriðja styrkleikaflokki fyrir dráttinn, og það var því eini flokkurinn sem liðið gat ekki fengið mótherja úr. Dregið var í beinni útsendingu á Vísi.

Sextán sæti eru í boði fyrir Evrópu á HM sem verður stærra en nokkru sinni, eða með 48 liðum. Efsta lið hvers riðils í undankeppninni í Evrópu kemst beint á HM en liðin tólf sem enda í 2. sæti fara í umspil, ásamt fjórum liðum sem unnu sinn riðil í Þjóðadeildinni. Þessi sextán lið í umspilinu munu berjast um fjögur síðustu sætin sem Evrópa fær á HM, og fer umspilið fram í mars 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×