Fótbolti

Ræðst hvaða stjörnur bíða strákanna okkar (en kannski ekki al­veg)

Sindri Sverrisson skrifar
Íslenska landsliðið fékk meðal annars Cristiano Ronaldo í heimsókn í síðustu undankeppni, sem var fyrir EM 2024. Í dag ræðst hvaða liðum Ísland mætir í undankeppni HM 2026.
Íslenska landsliðið fékk meðal annars Cristiano Ronaldo í heimsókn í síðustu undankeppni, sem var fyrir EM 2024. Í dag ræðst hvaða liðum Ísland mætir í undankeppni HM 2026. VÍSIR/VILHELM

Í dag verður dregið í undanriðla fyrir heimsmeistaramót karla í fótbolta, sem fram fer í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada sumarið 2026. Það verður fyrsta heila undankeppni nýs landsliðsþjálfara Íslands.

Drátturinn hefst klukkan 11 og verður fylgst með honum á Vísi og í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Drátturinn verður svolítið öðruvísi en vanalega því það er ekki enn nákvæmlega ljóst hvernig liðin raðast í efsta styrkleikaflokki. Það á nefnilega enn eftir að klára síðustu leiktíð af Þjóðadeildinni, sem hefur áhrif á undankeppnina.

Dregið verður í tólf riðla – sex með fjórum liðum og sex með fimm liðum. Efsta lið hvers riðils kemst á HM en liðin sem enda í 2. sæti fara í umspil í mars 2026, ásamt fjórum sigurvegurum riðla úr Þjóðadeildinni (Ísland vann ekki sinn riðil).

Gætu þurft að bíða fram í mars eftir toppliði

Ísland er í þriðja styrkleikaflokki og hefur KSÍ staðfest að Ísland verði í fjögurra liða riðli en ekki fimm liða, en það er vegna þess að Ísland er í hópi þeirra þjóða sem verða upptekin í Þjóðadeildarumspilsleikjum í mars, þegar Ísland spilar við Kósovó um sæti í B-deild.

Liðin sem komust í 8-liða úrslit Þjóðadeildarinnar verða einmitt einnig upptekin í mars, og liðin fjögur sem komast þaðan í undanúrslit Þjóðadeildarinnar í júní verða að vera í fjögurra liða riðlum í undankeppni HM.

Þess vegna verða mótherjar Íslands úr efsta flokki mögulega titlaðir sem sigurlið úr einu af einvígunum í 8-liða úrslitum Þjóðadeildar (Holland - Spánn, Króatía - Frakkland, Danmörk - Portúgal, Ítalía - Þýskaland). Það myndi þá ekki ráðast alveg fyrr en eftir 8-liða úrslitin í mars hver besti mótherjinn í riðli Íslands yrði.

Ísland má ekki mæta Færeyjum

Í drættinum í dag gilda einnig ákveðnir skilmálar til að forðast að mikið sé um löng ferðalög innan sama riðils, og þá eru Ísland og Færeyjar titluð af UEFA sem „vetrarstaðir“, þar sem mesta hættan er talin á of miklu vetrarveðri til að spila fótbolta, og geta ekki dregist í sama riðil.

Ísland mun mæta einu liði úr styrkleikaflokki 1, 2 og 4, en engum úr flokki 5. Hér að neðan má sjá flokkana:

Styrkleikaflokkarnir

Styrkleikaflokkur 1

  • Sigurlið Frakkland-Króatía
  • Sigurlið Spánn-Holland
  • Sigurlið Portúgal-Danmörk
  • Sigurlið Ítalía-Þýskaland
  • Taplið Frakkland-Króatía
  • Taplið Spánn-Holland
  • Taplið Portúgal-Danmörk
  • Taplið Ítalía-Þýskaland
  • Belgía
  • Austurríki
  • England
  • Sviss

Styrkleikaflokkur 2

  • Úkraína
  • Svíþjóð
  • Tyrkland
  • Wales
  • Ungverjaland
  • Serbía
  • Pólland
  • Rúmenía
  • Grikkland
  • Slóvakía
  • Tékkland
  • Noregur

Styrkleikaflokkur 3

  • Skotland
  • Slóvenía
  • Írland
  • Albanía
  • Norður-Makedónía
  • Georgía
  • Finnland
  • Ísland
  • Norður-Írland
  • Svartfjallaland
  • Bosnía
  • Ísrael

Styrkleikaflokkur 4

  • Búlgaría
  • Lúxemborg
  • Hvíta-Rússland
  • Kovósó
  • Armenía
  • Kasakstan
  • Aserbaídsjan
  • Eistland
  • Kýpur
  • Færeyjar
  • Lettland
  • Litháen

Styrkleikaflokkur 5

  • Moldóva
  • Malta
  • Andorra
  • Gíbraltar
  • Liechtenstein
  • San Marínó



Fleiri fréttir

Sjá meira


×