Erlent

Sí­fellt fleiri hoppa fyrir bíla í Afríku

Samúel Karl Ólason skrifar
Jólin eru sérstaklega hættuleg á götum Suður-Afríku.
Jólin eru sérstaklega hættuleg á götum Suður-Afríku. AP/Jerome Delay

Yfirvöld í Suður-Afríku hafa varað sérstaklega við því að sífellt fleiri eru að stökkva fyrir bíla, með því markmiði að fá greitt úr tryggingasjóði ríkisins. Þetta er sérstaklega gert á gatnamótum og við stöðvunarskilti, þar sem ökumenn hægja á sér.

Í yfirlýsingu frá forsvarsmönnum sjóðsins, sem send var út í gær var varað við því að verið væri að taka á þessum tilfellum, sem fari fjölgandi, en einnig var tekið fram að í einhverjum tilfellum væri um að ræða örvinglað fólk sem ætti í miklum fjárhagslegum erfiðleikum.

Þá segir í frétt AP fréttaveitunnar að tekið hafi verið fram að jafnvel þó fólk slasist alvarlega, og komi í ljós að það hafi vísvitandi valdið slysi, fái það ekki greitt úr tryggingasjóði.

Ekki liggur fyrir hversu mörg tilfelli um er að ræða en nærri því fimmtíu þúsund kröfum í sjóðinn var hafnað milli febrúar í fyrra og febrúar á þessu ári. Þá tóku forsvarsmenn sjóðsins fram að meðal annars hafi það verið gert vegna sviksamra krafna.

Jólin eru talin sérstaklega hættuleg í umferðinni í Suður-Afríku. Að meðaltali deyja rúmlega 1.500 manns í umferðinni frá 1. desember til 11. janúar. Þar af er um fjörutíu prósent gangandi vegfarendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×