Körfubolti

Franskur Jordan í stað Gigliotti hjá Grinda­vík

Sindri Sverrisson skrifar
Jordan Aboudou í leik með senegalska liðinu DUC en hann hefur mestan sinn feril spilað í Frakklandi.
Jordan Aboudou í leik með senegalska liðinu DUC en hann hefur mestan sinn feril spilað í Frakklandi. Getty/Juilen Bacot

Grindvíkingar hafa gert breytingar á leikmannahópi sínum fyrir seinni hluta leiktíðarinnar í Bónus-deild karla í körfubolta.

Grindavík getur nú einbeitt sér að keppni í Bónus-deildinni eftir að hafa fallið úr leik í VÍS-bikarnum með tapi gegn Val á sunnudaginn.

Eftir að hafa einnig tapað fyrir Val í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor er Grindavík nú með fimm sigra og fjögur töp það sem af er leiktíð í Bónus-deildinni, sex stigum á eftir toppliði Stjörnunnar.

Grindavík hefur nú fengið hinn franska Jordan Aboudou, sem sagður er 201 sentímetri á hæð og fær um að spila bæði sem miðherji eða kraftframherji (fimma eða fjarki). Grindvíkingar taka fram að um sé að ræða mikinn háloftafugl sem hati ekkert að troða boltanum með látum.

Aboudou hefur spilað megnið af sínum ferli í Frakklandi, bæði í efstu og næstefstu deild, og varð hann franskur meistari með Chalon árið 2012, þá rétt rúmlega tvítugur. Hann spilar sinn fyrsta leik gegn Val á föstudaginn.

Aboudou kemur í staðinn fyrir miðherjann Jason Gigliotti sem kom til Grindavíkur frá Þór á Akureyri í sumar.

Gigliotti skoraði að meðaltali 10,6 stig í leik í þeim níu deildarleikjum sem hann spilaði fyrir Grindavík, tók 6,1 fráköst og gaf 0,7 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×