Fótbolti

Pabbi Ödegaards tekinn við Lilleström

Sindri Sverrisson skrifar
Hans Erik Ödegaard stýrði Sandefjord í fjögur ár.
Hans Erik Ödegaard stýrði Sandefjord í fjögur ár. Sandefjord Fotball

Hans Erik Ödegaard, pabbi Arsenal-mannsins Martin Ödegaard, er tekinn við norska knattspyrnuliðinu Lilleström sem þýðir að hann færir sig niður um eina deild og þjálfar í norsku 1. deildinni á næstu leiktíð.

Hans Erik Ödegaard, sem er fimmtugur, hefur stýrt Sandefjord síðustu fjögur tímabil og skoraði Stefán Ingi Sigurðarson fjögur mörk fyrir hann á nýafstöðnu tímabili.

Sandefjord hélt sér uppi í úrvalsdeildinni og endaði í 10. sæti af 16 liðum, en þó aðeins einu stigi frá fallumspilssæti.

Lilleström endaði hins vegar í næstneðsta sæti og féll rakleitt niður, en Ödegaard hefur áhuga á að koma liðinu aftur í deild þeirra bestu í Noregi. Félagið var búið að leita til hans áður:

„Við áttum samtal í ágúst og þetta var mjög freistandi. En þá vorum við með Sandefjord í neðsta sæti og að mínu mati gátum við ekki gefist upp þó að útlitið væri dökkt,“ sagði Ödegaard eldri.

„Þess vegna neyddist ég til þess að segja nei á þeim tímapunkti,“ bætti hann við.

Ödegaard eldri hafði meðal annars verið aðstoðarþjálfari hjá Mjöndalen áður en hann flutti til Spánar árið 2015, þegar hinn 15 ára gamli Martin samdi við stórveldið Real Madrid eins og frægt er.

Hann sinnti þar unglingaþjálfun áður en hann sneri heim til Noregs í lok árs 2017, og stýrði liðum í yngri aldursflokkum áður en hann tók við Sandefjord.

Samningur Ödegaard við Lilleström er til fjögurra ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×