Handbolti

Guð­jón stýrði til sigurs en svekkjandi tap hjá læri­sveinum Rúnars

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson og Rúnar Sigtryggsson, þjálfarar í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta.
Guðjón Valur Sigurðsson og Rúnar Sigtryggsson, þjálfarar í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta. vísir / samsett

Lærisveinar Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach eru snúnir aftur á sigurbraut. Lærisveinar Rúnars Sigtryggsonar í Leipzig þurftu hins vegar að sætta sig við svekkjandi tap í þrettándu umferð þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta. 

Gummersbach - Erlangen 28-24

Guðjón Valur Sigurðsson og lærisveinar hans í Gummersbach eru snúnir aftur á sigurbraut eftir tap gegn Kiel í síðustu umferð. Gummerbach tók á móti Erlangen í dag og vann 28-24.

Stóra skyttan Miro Schhluroff var markahæstur heimamanna með sjö mörk og fullkomna nýtingu. Teitur Örn Einarsson skoraði þrjú mörk og gaf tvær stoðsendingar. Elliði Vignisson tók ekki þátt í leiknum.

Gummersbach hefur verið á fínu flugi í deildinni og vann fimm leiki í röð fyrir tapið gegn Kiel í síðustu umferð.

Liðið situr nú í sjöunda sæti með sextán stig eftir tólf leiki. Andstæðingur þeirra, Erlangen, er hins vegar í sextánda sæti, rétt fyrir ofan fallsvæðið.

HSV - Leipzig 33-32

Andri Már Rúnarsson og Viggó Kristjánsson spiluðu báðir í svekkjandi tapi Leipzig, á útivelli gegn HSV. Leipzig leiddi allan leikinn og var með tveggja marka forystu þegar minna en tíu mínútur voru eftir, en hélt ekki út og tapaði með einu marki. Andri Már skoraði tvö mörk og Viggó skoraði fimm mörk.

Leipzig, sem spilar undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, situr í tólfta sæti deildarinnar með sex sigra og sjö töp. HSV er einu stigi og tveimur sætum ofar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×