Körfubolti

Fimmtíuogsex stig Jókersins fóru til spillis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nikola Jokic hefur sennilega verið besti leikmaður NBA-deildarinnar í vetur. Gengi Denver Nuggets hefur hins vegar ekki verið neitt spes.
Nikola Jokic hefur sennilega verið besti leikmaður NBA-deildarinnar í vetur. Gengi Denver Nuggets hefur hins vegar ekki verið neitt spes. getty/Patrick Smith

Nikola Jokic setti persónulegt stigamet þegar Denver Nuggets tapaði fyrir Washington Wizards, 122-113, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Jokic skoraði 56 stig en þau fóru til spillis gegn liði sem hafði tapað sextán leikjum í röð þegar að viðureigninni í nótt kom. Auk þess skora 56 stig tók Jokic sextán fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Jamal Murray og Aaron Gordon voru fjarri góðu gamni hjá Denver og því þurfti Jokic að taka enn meira til sín en vanalega. Hann tók 38 skot í leiknum, þar af tuttugu í 3. leikhluta þar sem hann skoraði 23 stig.

Mike Malone, þjálfari Denver, tók sökina á sig eftir leikinn. Denver er í 9. sæti Vesturdeildarinnar með ellefu sigra og tíu töp.

„Ég er að gera virkilega slæma hluti með þetta lið. Að vera með 11-10 árangur og tapa og fá á okkur 122 stig gegn liði sem hafði skorað hundrað stig að meðaltali í síðustu fimm leikjum er vandræðalegt,“ sagði Malone hreinskilinn.

Jordan Poole skoraði 39 stig fyrir Washington sem hafði ekki unnið síðan 30. október áður en leiknum í nótt kom.

Jokic hefur spilað stórkostlega fyrir Denver á tímabilinu. Hann er þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar með 31,4 stig, sá frákastahæsti (13,6) og næststoðsendingahæsti (10,3).

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×