Körfubolti

LeBron og Davis með sam­tals 77 stig en Lakers tapaði enn og aftur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James í baráttu við Dyson Daniels.
LeBron James í baráttu við Dyson Daniels. getty/Todd Kirkland

Ekkert gengur hjá Los Angeles Lakers en í nótt tapaði liðið enn einum leiknum í NBA-deildinni í körfubolta, þrátt fyrir að stórstjörnurnar LeBron James og Anthony Davis hafi skorað næstum því áttatíu stig samtals.

Lakers mætti Atlanta Hawks í hörkuleik í nótt þar sem úrslitin réðust í framlengingu. Þegar 7,4 sekúndur voru eftir af henni setti Trae Young niður þriggja stiga skot og kom Atlanta í 134-132. Lakers fékk tækifæri til að jafna eða að vinna leikinn en þriggja stiga skot LeBrons geigaði.

LeBron skoraði 39 stig fyrir Lakers, tók tíu fráköst og gaf ellefu stoðsendingar. Davis skoraði 38 stig, tók tíu fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Young var stigahæstur hjá Atlanta með 31 stig auk þess sem hann gaf tuttugu stoðsendingar. Hann er stoðsendingahæstur í deildinni með 12,3 stoðsendingar að meðaltali í leik.

De'Andre Hunter skoraði 26 stig af bekknum en varamenn Atlanta skoruðu samtals 65. Á meðan gerðu varamenn Lakers aðeins sautján stig.

Lakers hefur nú tapað þremur leikjum í röð og sjö af síðustu níu leikjum sínum. Liðið er í 10. sæti Vesturdeildarinnar með tólf sigra og ellefu töp.

Öllu betur gengur hjá Atlanta sem hefur unnið sex leiki í röð. Haukarnir eru í 5. sæti Austurdeildarinnar með þrettán sigra og ellefu töp.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×