Erlent

Hafnar því að þurfa að velja á milli Banda­ríkjanna og Evrópu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Starmer segir Bretland munu verða stöðugur og ábyrgur aðili á óvissutímum.
Starmer segir Bretland munu verða stöðugur og ábyrgur aðili á óvissutímum. AP/Stefan Rousseau

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, segist hafna algjörlega hugmyndum um að Bretland þurfi að velja á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins.

Ummælin lét hann falla í kjölfar viðvarana sérfræðinga í viðskiptum og utanríkismálum um að Bretar gætu horft fram á að sæta þrýstingi frá Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseta, um að velja á milli ef hann efnir fyrirheit sín um aukna tolla á allan innflutning.

Starmer sagði Bretland aldrei myndu snúa baki við sambandi sínu við Bandaríkin, sama hversu mörg vandamál kunna að koma upp í samskiptum við ný stjórnvöld. Samband ríkjanna hefði verið hornsteinn öryggis og velmegunar í meira en öld.

Á sama tíma væri hann staðráðinn í því að halda áfram viðleitni sinni til að „endurstilla“ samband Bretlands við Evrópu í kjölfar Brexit. Sambandið milli Bretlands og Evrópu hefði verið vanrækt síðustu ár en væri nauðsynlegt til að tryggja öryggi og vöxt.

„Það er einfaldlega rangt að á þessum viðsjárverðu tímum verðum við að gera upp á milli þess að vera í liði með Bandaríkjunum og Evrópu,“ sagði Starmer. „Ég hafna því alfarið. Attlee valdi ekki á milli bandamanna. Churchill gerði ekki upp á milli þeirra. Það er þjóðarhagur að vinna með báðum.“

Talsmenn Verkamannaflokksins segjast hafa búið sig undir það að þurfa að vinna með stjórnvöldum undir Trump og Starmer sagði í gær að Bretland gæti verið „stöðugur og ábyrgur“ aðili á óvissutímum; traustur bandamaður.

Ítarlega umfjöllun um málið má finna hjá Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×