Upp­gjörið: Holland - Ís­land 27-25 | Hetjuleg frammi­staða gegn einu besta liði heims

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Perla Ruth Albertsdóttir á flugi gegn Hollendingum í Innsbruck í kvöld. Hún varð markahæst hjá Íslandi með átta mörk, fimm þeirra voru skoruð af vítalínunni. 
Perla Ruth Albertsdóttir á flugi gegn Hollendingum í Innsbruck í kvöld. Hún varð markahæst hjá Íslandi með átta mörk, fimm þeirra voru skoruð af vítalínunni.  EHF

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta hóf leik á Evópumótinu með 27-25 tapi gegn Hollandi. Ísland komst yfir í upphafi leiks og hélt lengi í hollenska liðið en missti dampinn undir lokin. Sigur Hollands hefði orðið töluvert stærri ef ekki væri fyrir markmanninn Elínu Jónu, sem var valin maður leiksins. 

Holland er meðal sterkustu handboltaliða heims, varð heimsmeistari 2019 og lenti í fimmta sæti á HM í fyrra, sem og á Ólympíuleikunum í París í sumar.

Ísland var sterkari aðilinn í upphafi leiks og tók forystuna fyrst um sinn. Holland byrjaði leikinn í fremur flatri 6-0 vörn, sem stóru skyttunum Theu og Andreu þótti skemmtilegt að skjóta yfir.

Thea Imani stökk hátt yfir vörnina.Christina Pahnke - sampics/Getty Images

Afar ósáttur þjálfari Hollands blés til leikhlés í stöðunni 8-5 fyrir Íslandi eftir um tólf mínútur. Við það hertist hollenska vörnin töluvert, lokaði mun betur á aðgerðir íslenska liðsins og jafnaði leikinn skömmu síðar.

Henrik Signell, var æfur út í sínar konur í upphafi leiks.Christina Pahnke - sampics/Getty Images

Sex varin skot í röð

Svo virtist sem krafturinn væri að hverfa frá Íslandi og Holland tæki völdin á vellinum en markmaðurinn Elín Jóna sá til þess að það gerðist ekki, strax allavega.

Hún varði sex skot í röð, þar af eitt víti, undir lok fyrri hálfleiks og hélt leiknum jöfnum fyrir Ísland, 12-12 þegar blásið var til hálfleiks.

Elín Jóna var stórkostleg í íslenska markinu.Christina Pahnke - sampics/Getty Images

Holland hóf seinni hálfleik betur en Ísland hélt í

Seinni hálfleikur var síðan nokkuð kaflaskiptur. Holland kom út úr klefanum af miklum krafti og tók fjögurra marka forystu. Yfirburðirnir voru miklir fyrst um sinn en Ísland hélt virkilega vel í ógnarsterkan andstæðing.

Það þurfti mikið þrek til en Íslandi tókst að jafna leikinn aftur, 21-21, þegar rúmar tíu mínútur voru eftir. Þá var orkan hins vegar á þrotum hjá íslenska liðinu.

Orkulítið íslenskt lið undir lokin

Vörnin opnaðist upp á gátt, sérstaklega fyrir Dione Housheer sem braust ítrekað í gegn og skoraði.

Dione Housheer skoraði úr nokkrum auðveldum skotum undir lok leiks.Christina Pahnke - sampics/Getty Images

Sóknarleikurinn var heldur ekki upp á marga fiska síðustu mínúturnar. Íslandi gekk illa að skora, meira að segja þegar þær hollensku fengu brottvísanir og voru tveimur leikmönnum færri tókst ekki að koma marki að.

Holland nýtti sér vandræði Íslands og tók afgerandi forystu, sem minnkaði þó um eitt mark á síðustu sekúndu, þökk sé flautuskoti Elínar Klöru sem small í slánna og inn.

Það var góður endir á leiknum fyrir Ísland eftir erfiðan lokakafla. Alltaf ánægjulegt að enda á stemningsmarki og frammistöðuna getur liðið sannarlega verið sátt með, þó úrslitin hafi ekki fylgt eftir.

Stjörnur leiksins

Elín Jóna Þorsteinsdóttir, markmaður, var valin maður leiksins og var vel að því kominn. Heilir fimmtán varðir boltar. Hélt Íslandi inni í leiknum og kom í veg fyrir enn stærra tap.

Perla Ruth endaði markahæst og skilaði flottu framlagi úr horninu.

Andrea Jacobsen og Thea Imani Sturludóttir byrjuðu vel en voru ekki eins sýnilegar í sóknarleiknum í seinni hálfleik.

Steinunn Björnsdóttir kom sterk inn á línuna. Elísa Elíasdóttir fékk fáar mínútur en nýtti sinn séns virkilega vel. Kom inn af krafti í seinni hálfleik og jafnaði leikinn fyrir Ísland.

Helstu tilþrif 

Umgjörð og stemning

Riðill Íslands er spilaður í Ólympíuhöllinni í Innsbruck í Austurríki en mótið fer einnig fram í Ungverjalandi og Sviss. Um hundrað Íslendingar voru á svæðinu, flestir nýlentir úr flugi, og létu vel í sér heyra. Flottir fulltrúar þjóðar vorrar og mikilvægur stuðningur fyrir stelpurnar.

Næstu leikir

Auk Hollands er Ísland í riðli með Úkraínu og Þýskalandi. Spilað verður við Úkraínu á sunnudag og Þýskaland á þriðjudag áður en milliriðlar taka við. Báðir leikir hefjast klukkan hálf átta og verða í beinni textalýsingu á Vísi.

Það var góð stemning í íslenska hópnum fyrir leik og verður vonandi áfram allt mótið.Christina Pahnke - sampics/Getty Images

Viðtöl 

Væntanleg á Vísi innan skamms. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira