Skoðun

Við þurfum þing­mann eins og Ágúst Bjarna

Valdimar Víðisson skrifar

Ágúst Bjarni Garðarsson skipar annað sætið á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi. Við þurfum að sameinast um það verkefni að tryggja það að Ágúst Bjarni haldi sínu þingsæti sem þingmaður Suðvesturkjördæmis, þingmaður Hafnfirðinga, þingmaður fyrir landið allt!

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Ágúst Bjarni svo sannarlega látið að sér kveða í stjórnmálum. Var kosinn í bæjarstjórn í Hafnarfirði árið 2018. Meðan hann var bæjarfulltrúi þá gegndi hann m.a. formennsku í bæjarráði og varaformennsku í skipulags- og byggingarráði. Haustið 2021 var hann svo kosinn á þing.

Hans helstu baráttumál hafa verið málefni fjölskyldna í víðu samhengi sem og húsnæðismál. Í Hafnarfirði vann hann ötullega að því að lækka álögur á fjölskyldufólk og sést það m.a. í dag á þeim myndarlegu systkinaafsláttum sem eru í leik- og grunnskólum. Hann fór af krafti inn í skipulagsmálin og vann vel með samstarfsfólki sínu í bæjarstjórn og skipulagsyfirvöldum að því að leysa þann hnút sem komin var í uppbyggingu í Skarðshlíð. Allt fór á blússandi ferð og það hverfi byggðist hratt og svo í framhaldi Hamranes sem er í byggingu.

Á liðnu kjörtímabili má með sanni segja að Ágúst Bjarni hafi verið iðinn og duglegur. Hann hefur lagt fram ýmsar lausnir í húsnæðismálum og þreytist ekki á að ræða mikilvægi þess fyrir alla, sérstaklega fyrir fyrstu kaupendur. Hann hélt, að eigin frumkvæði, opinn fund um húsnæðismál í haust. Fullt var út úr dyrum og eru allir sammála um hversu góður og gagnlegur sá fundur hafi verið.

Ágúst hefur einlægan áhuga á fólki og fer um allt kjördæmið til að hitta fólk á fundum, í fyrirtækjum eða einfaldlega á förnum vegi. Og þetta gerir hann ekki bara fyrir kosningar heldur allt kjörtímabilið. Eða eins og hann sjálfur segir: ,,Ég þarf að vita hvað brennur á fólki“. Duglegri þingmaður er vandfundinn. Setur sig inn í öll mál og er óhræddur að segja sína skoðun og standa með henni.

Íbúar í Hafnarfirði, Kópavogi, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Kjósarhreppi og Mosfellsbæ, sameinumst um þetta verkefni og setjum X við B. Við þurfum þingmann eins og Ágúst Bjarna Garðarsson.

Höfundur er oddviti Framsóknar í Hafnarfirði og formaður bæjarráðs.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×