Skoðun

Ert þú „svo­lítið OCD“?

Sóley Dröfn Davíðsdóttir skrifar

Stundum lætur fólk þau orð falla að það sé „svolítið OCD“ og á þá við að það vilji hafa allt í röð og reglu eða séu miklir snyrtipinnar. Þótt því beri að fagna að fólk gangi vel um og þyki það hið eðlilegasta mál að vera með þráhyggju og áráttu (OCD), geta slík ummæli grafið undan skilningi á vandanum. Þráhyggja og árátta telst nefnilega til tíu mest hamlandi kvilla sem hrjáð geta manninn og heldur fólki í heljargreipum svo árum eða áratugum skiptir. Einkennin sem teljast til þráhyggju og áráttu eru tvíþætt: Annars vegar fær fólk áleitnar og óboðnar hugsanir, hugsýnir eða hvatir um hið versta sem það getur ímyndað sér, eins og það að misnota barn, hrinda einhverjum fyrir bíl eða valda eldsvoða. Hins vegar leiðist fólk út í áráttur sem koma eiga í veg fyrir það versta eða draga úr þjáningunni sem þráhyggjan skapar. Áráttur geta átt sér stað í huganum, eins og þegar talið er í hljóði eða óþægilegar hugsanir jafnaðar út. Þær gera einnig verið sýnilegar, endurteknar athafnir eins og það að þvo sér í sífellu um hendurnar eða margyfirfara læsingar. Til að fólk teljist vera með þráhyggju og áráttu þarf vandinn að taka upp að minnsta kosti klukkustund dag, valda vanlíðan eða skerða lífsgæði. Um 70% fólks í þessum hópi þróar með sér aðrar geðraskanir og fer þunglyndi þar fremst í flokki. Skiljanlega dregur vandinn úr fólki, enda má vel ímynda sér að það sé lýjandi að eyða fleiri tímum á dag í það sem aðrir telja óþarft. Eins og það að margyfirfara heimilissorpið til að tryggja að engin verðmæti hafi slæðst í ruslið eða að sótthreinsa allt sem fer inn fyrir hússins dyr. Stundum fer fjölskyldan að taka þátt í áráttum til að létta undir með þeim sem um ræðir. Flestir hafa reynt að brjótast úr viðjum þráhyggjunnar á einhverjum tímapunkti en ekki haft erindi sem erfiði.

Meðferðarárangur góður

Góðu fréttirnar eru þær að til eru öflug meðferðarúrræði við þráhyggju og áráttu. Öflugasta úrræðið er hugræn atferlismeðferð en þar er unnið markvisst að því að uppræta vítahringinn sem myndast hefur. Þá meðferð má bæði fá í formi einstaklings- og hópmeðferðar og er lítill munur á árangrinum. Meðferðartímar geta verið með ýmsu sniði; þeir geta staðið yfir í klukkutíma eða lengur og átt sér stað vikulega eða með styttra millibili. Hérlendis má líka fá svokallaða „fjögurra daga meðferð“ sem líkja má við OCD-vinnubúðir. Sú meðferð fer fram í litlum hópum þar sem hver og einn vinnur lungað úr deginum með sínum sálfræðingi milli þess sem hann hittir hópinn og fær fregnir af afrekum hans. Að þessum dögum loknum eru um 70% þátttakenda lausir úr greipum þráhyggjunnar og 90% betri en áður var. Árangurinn virðist haldast í einhver ár hið minnsta, ef marka má eftirfylgdarrannsóknir sem gerðar hafa verið.

Eins og sjá má er heilmikil von um bata og er um að gera að leita sér aðstoðar og segja starfinu hjá OCD hf lausu.

Höfundur er yfirsálfræðingur við Kvíðameðferðarstöðina.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×