Skoðun

Ert þú í tengslum?

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Gott að eldast er aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk sem byggir á nýrri hugsun í þjónustu við þennan stækkandi hóp í samfélagi okkar. Áætlunina fékk ég samþykkta á Alþingi í fyrra. Með henni er leitast eftir að breyta og bæta þjónustu við eldra fólk, meðal annars með því að gera hana einstaklingsmiðaðri. Jafnframt er áhersla lögð á andlega, líkamlega og félagslega heilsueflingu en með virkni og félagslegri samveru er stuðlað að heilbrigðri öldrun.

Tengiráðgjafar eiga að rjúfa einangrun fólks

Félagsleg einangrun er vaxandi vandamál í nútímasamfélagi og rannsóknir sýna að til mikils er að vinna með aukinni félagslegri virkni enda félagsleg einangrun stór áhættuþáttur einmannaleika. Nú hafa sex sveitarfélög hafið þátttöku í spennandi tilraunaverkefni með ráðningu svokallaðra tengiráðgjafa. Hlutverk tengiráðgjafa er að leitast við að rjúfa einangrun eldra fólks með símtölum og heimsóknum og því að finna leiðir til að auka virkni. Það getur verið auðvelt úrlausnar, eins og með því að tengja saman fólk með svipuð áhugamál, eða krafist flóknara samstarfs milli þjónustustofnana.

Nærsamfélagið virkjað gegn einmanaleika

Tengiráðgjafi þarf að hafa yfirsýn yfir bjargir nærsamfélagsins, sérstaklega þau úrræði sem eru líkleg til að auka félagsleg samskipti viðkvæmra hópa og vinna gegn einmanaleika. Tengiráðgjafi er þannig í góðum tengslum við aðila úr nærsamfélaginu til að nýta sem best þær bjargir sem fyrir eru í nærsamfélaginu, ryðja úr vegi hindrunum á milli mismunandi þjónustuaðila og byggja upp tengingar á milli þjónustuveitenda í sveitarfélaginu. Á flestum stöðum mun þetta fela í sér samtal á milli félagsþjónustu og heilsugæslu, félagasamtaka, trúfélaga, sjálfboðaliðasamtaka o.s.frv. Með þessu er nærumhverfið virkjað til þess að taka betur utan um þau sem eru félagslega einangruð eða einmana. Hlutverk tengiráðgjafa er þannig að stíga inn og finna lausn sem hentar hverjum og einum.

Það á að vera Gott að eldast

Í minni tíð sem félags- og vinnumarkaðsráðherra hef ég lagt áherslu á að öll séu með í samfélaginu. Tengiráðgjafarnir munu fjölga tækifærum fyrir margt eldra fólk til félagslegrar virkni, draga úr einangrun og ég hlakka til að sjá hvernig útkoman verður. Það á að vera Gott að eldast.

Höfundur er formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×