Skoðun

Vel­megun Ís­lands er háð al­þjóða­öryggi

Smári McCarthy skrifar

Forsendur íslenskrar velmegunar eru í hættu, en ekki (bara) af þeim ástæðum sem fólki kemur fyrst í hug. Staðan er sú að öll sú velmegun sem við búum við í dag varð til í kjölfar seinni heimsstyrjaldar, en við höfum vanist því að hugsa um ýmsa hvalreka sem hafa ýtt Íslandi frá því að vera fátækt örríki á norðurhjara í að vera öflugt þekkingar- og lýðræðissamfélag með lífskjör í heimsklassa. Til dæmis talar fólk um Marshallaðstoðina, síldina, orkuiðnaðinn og álið, ferðaþjónustuna, kvikmyndaiðnaðinn, og fjöldann allan af tæknifyrirtækjum í heilbrigðis- og lyfjageiranum, tölvugeiranum.

Sjaldnar er þó talað um hvað gerir þetta allt saman mögulegt. Frá enda seinni heimstyrjaldar hefur svokallaður “glóbalismi” – alþjóðahyggja – verið við lýði. Sumir halda að umrædd alþjóðahyggja sé einhverskonar illt samsæri rekið í þágu auðmanna, en raunin er að alþjóðahyggjan er fyrst og fremst pólitískt samkomulag um nokkur atriði, einkum að ríki geti stundað sífellt frjálsari viðskipti sín á milli, og að tryggja skuli frið á heimshöfunum svo að vörurnar tengt þeim viðskiptum geti farið með ódýrum og öruggum hætti milli staða. Í krafti þessa fyrirkomulags fara tæplega 119 þúsund farskip um heim allan og flytja rúmlega 11 milljarða tonna af vörum árlega, á ótrúlega lágu verði miðað við umfang, og að öllu jöfnu gengur þetta merkilega skammlaust fyrir sig.

En spyrja má: Hver á að tryggja þann frið á heimshöfunum? Síðustu 79 árin hafa Bandaríkin einkum séð um það, með fulltingi ýmissa annarra landa, með því að beita stærsta sjóher heims til að tryggja almennt öryggi í far- og farmflutningum. Þegar víðtæk keðja skipa kemst heilu og höldnu með bíla frá Japan og Kóreu, síma og raftæki frá Kína og Taívan, olíuvörur frá miðausturlöndum eða norðursjó, og allskonar matvöru alls staðar að í heiminum til Íslands og annarra landa, þrátt fyrir deilur og stríð milli ríkja, hryðjuverkahópa, sjóræningja og svo framvegis, þá er það þeim verndarhjúpi að þakka að miklu leyti. Það gleymist oft að öldum saman voru skip á úthöfunum tíð fórnarlömb árása og sjórána. Og meðan það vissulega gerist enn, þá er núverandi öryggisumhverfi gjörólíkt því sem áður var.

Vandamálið er að þessi verndarhjúpur byggir að miklu leyti á því að flotinn sé til staðar til að vernda skipin. Ef flotinn er ekki til staðar, þá er verndarhjúpurinn ekki til staðar, og þá verða viðskiptin fljótt miklu dýrari og flóknari. Við fengum smjörþef af því í vetur, þegar Húta-liðar í Jemen tóku að skjóta eldflaugum að flutningaskipum, með þeim afleiðingum að mörg fyrirtæki ákváðu að beina skipunum suður fyrir Afríku frekar en að taka þá áhættu á að fara um Rauða hafið og Suez-skurðinn. Þetta lengir flutningstíma, sem leiðir af sér samdrátt á heildarmagni flutninga sem geta átt sér stað með sama farskipaflota. Þetta mun líklegast leiða af sér samdrátt á heildarflutningum og aukningu á eftirspurn eftir flutningsplássi, sem leiðir til hækkaðs flutningsverðs. Þá mun aukin áhætta í skipaflutningum hækka kostnað trygginga í leiðinni.

Undanfarna áratugi hafa bandarísk stjórnmál í sífellt meira mæli leitað inn á við, og meðal afleiðinga þess er þverrandi áhugi Bandarískra yfirvalda á að kosta risavaxinn flota til að tryggja öryggi á heimshöfunum, og þar með niðurgreiða stóran hluta af vöruviðskiptum heimsins. Blanda af aukinni efnahagslegri þjóðernishyggju þar, stríðsþreytu eftir misheppnaðan stríðsrekstur í Írak og Afghanistan, og aukinni áherslu á að efla framleiðslu innanlands, svo ekki sé talað um uppgang Trumpisma, hefur gert það að verkum að flotar Bandaríkjanna og annarra landa hafa minnkað um meira en helming síðustu þrjá áratugina, og verkefni þeirra hafa breyst töluvert um leið.

Það er ekki útséð ennþá hvort þetta komi til með að leiða af sér afturhvarf til fyrri tíma, eða þá að hvaða leyti, en það væri gagnlegt fyrir Ísland sem ríki sem byggir tilveru sína á frjálsum viðskiptum og öruggum farmflutningum að gera sér grein fyrir því að fjarað getur hratt undan velmeguninni ef verndarhjúpurinn bregst.

Hvernig nákvæmlega íslenska ríkið ætti að bregðast við þeirri hættu er opin spurning. Ágæt byrjun væri að kortleggja að hversu miklu leyti innflutningur til Íslands og útflutningur frá Íslandi fer að jafnaði um mismunandi svæði og búa til áhættumatslíkan fyrir svæðin. Í kjölfarið mætti byrja að efla íslenska framleiðslu til að skipta út innflutningi (e. import substitution) á þeim sviðum þar sem það er mögulegt og efnahagslega fýsilegt. Þá mættu stjórnvöld beita sér fyrir því á alþjóðagrundvelli að vesturlönd eða jafnvel öll ríki taki sig saman um að halda verndarhjúpnum gangandi. Það gæti auðvitað kallað á að Ísland leggi eitthvað til málanna líka.

Ísland hefur áratugum saman státað sig af því að vera friðsöm þjóð, og við megum alveg vera stolt af því að vera friðelskandi land sem hefur beitt sér fyrir friði. En við megum aldrei gleyma því að friðurinn er tryggður með alþjóðlegu öryggissamstarfi. Öryggi okkar, sem við byggjum tilveru okkar á, er grundvallað á niðurgreiðslu annarra ríkja, aðallega Bandaríkjanna. Það öryggi er háð pólitískum ákvörðunum sem við höfum lítið sem ekkert um að segja. Ef hætta er á að það geti breyst þurfum við að bregðast við og verja okkar þjóðaröryggishagsmuni. Við gerum það best með því að halda merkjum alþjóðahyggjunnar á lofti.

Höfundur er framkvæmdarstjóri Ecosophy og fyrrum Alþingismaður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×