Skoðun

Hatur og fyrir­litning

Einar Scheving skrifar

Undanfarna daga hefur Þjóðleikhús fáránleikans sett upp einhverja furðulegustu sýningu í manna minnum og er þó enginn hörgull á sambærilegum sýningum í sögu þessarar andlega-löskuðu þjóðar. Gaslýsingin sem hefur átt sér stað í greinaskrifum og á samfélagsmiðlum undanfarna daga er með nokkrum ólíkindum og fyrir neðan virðingu allra þeirra sem hafa ýmist beitt henni eða hampað beitingu hennar - meðvitað og ómeðvitað.

Í boði ríkisstjórnar fyrrverandi forsætisráðherra hefur Ísland verið á einskonar brunaútsölu fyrir útvalda auðmenn - innlenda sem erlenda - og mun afslátturinn aðeins aukast með hrossakaupum þeim sem nýlega áttu sér stað fyrir allra augum og skiluðu spilltasta stjórnmálamanni Íslandssögunnar í valdamesta embætti þjóðarinnar.

Ef fram heldur sem horfir, þá munu á Íslandi framtíðarinnar búa tveir ólíkir hópar; annars vegar auðmenn og olígarkar og hins vegar ódýrt erlent vinnuafl til að þrífa upp skítinn eftir fyrrnefnda hópinn. Meðal-Íslendingurinn verður löngu flúinn þegar búið verður að selja frá okkur allar þær auðlindir og eignir sem annars gætu tryggt hverjum landsmanni sómasamlegt viðurværi.

Stór hluti þjóðarinnar hefur því upplifað fullkomlega réttláta reiði yfir þeirri uggvænlegu þróun sem átt hefur sér stað á landinu og getur einfaldlega ekki hugsað sér að sú manneskja sem fór frá því að vera vonarstjarna réttlætis og jafnréttis yfir í það að vera einskonar verndari spillingar geti valsað úr valdamesta embætti þjóðarinnar yfir í það æðsta.

En í staðinn fyrir að svara réttmætri gagnrýni fólks með rökum þá hafa stuðningsmenn Katrínar úr mennta- og menningargeiranum beitt ódýrum gaslýsingum í formi glórulauss þvaðurs, sem allir vita að heldur engu vatni, en deilt er á samfélagsmiðlum eins og enginn sé morgundagurinn - kannski vegna þess að fólk hefur ekkert bitastæðara í höndunum.

Duglegustu gaslýsararnir hafa reynt að sannfæra almenning um að kvenhatur sé undirrót þess að flestir Íslendingar vilji ekki sjá fyrrverandi forsætisráðherra setjast beint í stól forseta - þrátt fyrir að þrír efstu frambjóðendurnir í skoðanakönnunum séu KONUR. Jón Ólafsson, sá ágæti prófessor við Háskóla Íslands, fór fremstur í flokki með þessa vafasömu kenningu í grein sinni „Má Katrín Jakobs­dóttir bjóða sig fram?“, þótt aðrir úr menntastéttinni hafi einnig lagt kenningunni lið.

Sóley Tómasdóttir, sem svaraði grein Jóns að mestu leyti ágætlega, tók m.a.s. undir með honum „að samfélagsleg kvenfyrirlitning [sé] risastórt vandamál á Íslandi.“

Er fólk að átta sig á því hversu gríðarlega gildishlaðin þessi orð eru? Kvenhatur og kvenfyrirlitning? Í alvöru? Að hata einhvern og/eða fyrirlíta er sennilega einhver ógeðfeldasta tilfinning sem mannskepnan getur borið, en samt er „kvenfyrirlitning [og kvenhatur] risastórt vandamál á Íslandi.“

Er ekki kominn tími á að við hættum að gefa afslátt af jafn-gildishlöðnum orðum, nema þegar þau eiga klárlega við?

Ég get auðvitað aðeins talað útfrá mínu nærumhverfi, en þessi orð eru einfaldlega alveg út úr kortinu ef miðað er við upplifun og orðræðu karlkyns-vina minna á hinu kyninu. Konur, líkt og karlar, eru jafn-misjafnar og þær eru margar og okkur getur m.a.s. líkað ágætlega við fólk án þess að vera alltaf sátt við gjörðir þeirra eða ákvarðanir. Fólk er allskonar og í raun er þetta ekkert flókið. Að sjálfsögðu þarf að halda vöku í allri jafnréttisbaráttu, hvort sem er fyrir jafnrétti kynjanna, samkynhneigðra eða minnihlutahópa, en að yfirtaka gildishlaðin orð - eins og Sóley bendir á í grein sinni (þrátt fyrir að falla í eigin gildru) - til að réttlæta veikan málstað hefur sennilega þveröfug áhrif á jafnréttisbaráttuna.

Ég hef sjálfur átt af Katrínu Jakobsdóttur ágætis kynni, þótt þau hafi því miður verið með minnsta móti. Það geta allir verið sammála um að hún er eldklár og ber af sér góðan þokka. Hún lét meira að segja hafa eftir sér í útvarpsviðtali fyrir nokkrum árum að tónlist undirritaðs væri í sérlegu uppáhaldi, þótt hún hafi, eðlilega, svarað því um daginn að Bubbi væri hennar uppáhaldstónlistarmaður. Við Katrín höfum því greinilega svipaðan tónlistarsmekk, enda er Bubbi auðvitað þjóðargersemi, þótt hann hafi kosið að blokka mig á Fésbókinni eftir að ég velti fyrir mér í færslu um daginn hvernig færi saman ástríða fyrir náttúruvernd og laxveiði annars vegar og skeytingaleysi gagnvart frumvarpi sem mun menga firði og náttúru landsins hins vegar.

En þótt mér líki ágætlega við persónuna Katrínu Jakobsdóttur, þá tel ég hana ekki réttu manneskjuna í embætti forseta Íslands sökum ákvarðana í tíð sinni sem forsætisráðherra, eins og fram hefur komið. Mér þykir töluvert minna til núverandi forsætisráðherra koma en fráfarandi, en hvorugt þeirra hata ég eða fyrirlít, þótt mér mislíki gjörðir þeirra umtalsvert.

Þótt það tengist efni þessarar greinar aðeins óbeint, þá hugnast mér engan veginn að á Bessastöðum sitji sérlegur sendiherra Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, en Katrín gegnir nú slíkri stöðu. Það er öllum ljóst, sem hafa kynnt sér stofnunina, að henni er stjórnað af hagsmunaaðilum, enda leggja þeir meira fjármagn til stofnunarinnar en flest aðildarlönd. Þarf það einfaldlega að vera hafið yfir allan vafa að æðsti embættismaður þjóðarinnar sé með hagsmuni hennar, en ekki erlendra hagsmunaaðila, að leiðarljósi öllum stundum.

Höfundur er tónlistarmaður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×