Skoðun

Guð­rún biskup – til heilla fyrir okkur öll!

Arndís Steinþórsdóttir og Glóey Helgudótir Finnsdóttir skrifa

Biskupskjör stendur nú yfir. Þjóðkirkjan velur sér nýjan leiðtoga og í fyrri umferð urðu þau Guðrún Karls Helgudóttir sóknarprestur í Grafarvogskirkju og Guðmundar Karl Brynjarsson sóknarprestur í Lindakirkju hlutskörpust. Seinni umferð fer fram dagana 2.-7. maí nk.

Íslenskt samfélag einkennist í auknum mæli af mikilli skautun í samfélagsumræðunni. Áföll og áskoranir síðustu ára hér heima sem og átök og hörmungar á alþjóðavettvangi hafa tekið sinn toll. Mörgu fólki líður ekki nógu vel og er óvisst um framtíðina. Við slíkar aðstæður er hætta á aukinni skautun og sundrungu. Hætta er á að samfélagsumræðan þróist enn frekar í átt til aukinna kynja- og kynþáttafordóma, fordóma í garð kynsegin fólks, fólks með geðraskanir og annarra jaðarhópa. Það er því mikilvægt sem aldrei fyrr að í valda- og áhrifastöður veljist fólk sem hefur getu og vilja til að láta gott af sér leiða í þágu okkar samfélags. Fólk sem hlustar á ólík sjónarmið, fólk sem ber klæði á vopnin en brýnir þau ekki, fólk sem lætur kærleik, mannúð, samkennd og virðingu ráða för.

Guðrún Karls Helgudóttir hefur sýnt og sannað í störfum sínum sem prestur og sóknarprestur bæði í Svíþjóð og hér heima að hún er einmitt þannig manneskja. Hún er vel menntuð og víðsýn. Hún er sterkur leiðtogi sem skapar gott andrúmloft samvinnu og virðingar þar sem hún kemur. Hún er ekki átakasækin en hvikar þó aldrei undan í erfiðum málum. En fyrst og síðast hefur Guðrún ríkan vilja og getu til að láta gott af sér leiða bæði innan þjóðkirkjunnar og í víðara samhengi.

Við höfum þekkt Guðrúnu frá unga aldri og vitum hvern mann hún hefur að geyma. Því vitum við að verði Guðrún kjörin biskup mun það ekki einungis verða til heilla fyrir þjóðkirkjuna heldur fyrir okkur öll.

Höfundar eru áhugafólk um biskupskjör. Arndís er skólastjóri og Glóey skrifstofustjóri.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×