Skoðun

Að vita betur en vísindin

Birgir Birgisson skrifar

Síðdegisþáttur Bylgjunnar, Reykjavík síðdegis, veltir upp ýmsum málum, nú síðast (6. mars) umræðunni um það hvort leyfa eigi ökumönnum á Íslandi að taka hægri beygju á gatnamótum jafnvel þó umferðarljós á þeirra akstursstefnu lýsi rauðu ljósi. Þáttarstjórnendur ræddu góða stund við Vilhjálm Árnason þingmann, sem er 2. varaformaður í Umhverfis- og Samgöngunefnd Alþingis. Hvort það þýði að þingmaðurinn hafi einhverja sérstaka innsýn í umferðaröryggismál umfram aðra skal ósagt látið. En Vilhjálmi “finnst” þetta góð hugmynd og viðtalið bar þess ýmis merki að hann hafi lítið gert til að kynna sér staðreyndir málsins. 

Einn af þáttarstjórnendum sagðist í viðtalinu telja að í Danmörku væri hægri beygja á móti rauðu ljósi leyfð. Varaformaðurinn tók undir það, en sagðist þó ekki vilja slá því alveg föstu, var greinilega ekki alveg viss. Enda kemur í ljós að Danir leyfa ekki og hafa aldrei leyft slíkar beygjur. Staðreyndin er sú að Danir eiga í mesta basli með öryggi óvarinna vegfarenda við einmitt þessar aðstæður, þ.e. hægri beygju bíla þar sem umferð óvarinna vegfarenda í sömu akstursstefnu heldur beint áfram. 5 dauðaslys og 80 alvarleg slys verða í Danmörku á hverju ári við einmitt þessar aðstæður. Og þó eru samgönguinnviðir þar í landi yfirleitt mun betur hannaðir og byggðir en hér. 

Þegar við skoðum lista yfir lönd þar sem hægri beygjur gegn rauðu ljósi eru leyfðar, er þar ekki að finna neitt af þeim löndum sem við viljum gjarna bera okkur saman við í umferðaröryggismálum. Á listanum er ekki eitt einasta Evrópuland og ekkert af þeim löndum sem litið er til sem fyrirmynda við uppbyggingu öruggra innviða fyrir umferð. Það er áhyggjuefni að 2. varaformaður Samgöngunefndar Alþingis viti þetta ekki þegar hann fer í útvarpsviðtal um jafn mikilvægt mál. Á listanum eru, fyrir utan Bandaríkin, Kanada og Mexíkó, eingöngu lönd í Suður-Ameríku, Asíu og nokkur Mið-Austurlönd. Reyndar voru slíkar beygjur leyfðar í Litháen, amk við vissar aðstæður. En þeim reglum var nýlega breytt og leyfið afturkallað árið 2020. 

Reynsla þeirra þjóða sem leyfa hægri beygju á rauðu er heldur ekki til mikillar eftirbreytni. Rannsókn sem var framkvæmd í Bandaríkjunum á gatnamótum þar sem slíkar beygjur voru leyfðar en höfðu ekki verið það áður, leiddi í ljós að slys á gangandi vegfarendum jukust um nærri 60% og slys á hjólandi vegfarendum tvöfölduðust. Rannsóknin var endurtekin rúmum áratug síðar og þá voru niðurstöðurnar litlu betri. En varaformaðurinn hafði litlar áhyggjur af aukningu slysa, þetta mætti koma í veg fyrir með “forvörnum”. Hvaða forvarnir það eiga að vera kom reyndar ekki fram, enda virtist mun mikilvægara að koma því að hversu gífurlega mikilvægt umhverfismál það væri að þvinga ekki ökumenn til að bíða á rauðu ljósi með bílvélar í gangi og þar af leiðandi auka mengun. Þetta fannst þingmanninum mikilvæg rök þrátt fyrir að flestir nýir bílar sjái nú sjálfir um það að slökka á vélinni þegar beðið er á rauðu ljósi. 

Jafnvel í þeim löndum sem teljast fyrirmyndir flestra bæði í umhverfismálum og umferðaröryggi, og eru þar að auki með miklu ríkari hjólamenningu en við höfum á Íslandi, eins og t.d. í Hollandi og Danmörku, er talið mun öruggara að leyfa ekki hægri beygjur gegn rauðu ljósi. Í þessum sömu löndum eru gæði umferðarfræðslu og kennslu til ökuréttinda einnig til fyrirmyndar. Þrátt fyrir það er ökumönnum þessara landa ekki treyst til að beygja til hægri á móti rauðu ljósi. Getur verið að varaformaðurinn lumi á einhverjum nýstárlegum forvörnum sem umferðaröryggissérfræðingum þessara landa hafi bara hreint ekki dottið í hug? 

Raunar er það aðdáunarvert hve mikla trú þingmaðurinn hefur á íslenskum ökumönnum. Rök hans fyrir því að slysum myndi ekki fjölga ef hægri beygjur á rauðu ljósi yrðu leyfðar voru aðallega þau að við 90 gráðu beygju á gatnamótum fari ökutæki það hægt að ökumenn myndu sjálfkrafa líta til beggja hliða. Glöggir lesendur átta sig væntanlega strax á því að á milli þessara tveggja atriða eru engin bein orsakatengsl. Ef slík tengsl væru til staðar, þ.e. ef það væri rétt að lítill hraði leiddi sjálfkrafa til þess að ökumenn gái vel til beggja hliða og sýni annarri umferð fullt tillit þá væri aldrei ekið á börn á gangbrautum. Heldur ekki á gangandi vegfarendur við gatnamót, hvað þá í veg fyrir hjólandi umferð við innkeyrslur og útkeyrslur af bílastæðum. En það þarf ekki að leita lengi í íslenskum slysaskýrslum til að sjá að slys við einmitt þær aðstæður þegar bílum er ekið hægt eru mjög algeng og verða oft alvarleg, þrátt fyrir að umferðarreglur og lög eigi að koma í veg fyrir þau. Því miður er líka til mjög nýlegt dæmi um banaslys í umferðinni hér í Reykjavík, þar sem ökumaður ók á mjög litlum hraða á gangandi vegfaranda við einmitt þessar aðstæður, þ.e. 90 gráðu beygju á gatnamótum. 

Þær breytingar sem gerðar hafa verið í Reykjavík á undanförnum árum, þar sem svokallaðir beygjuvasar hafa verið fjarlægðir, auka til muna öryggi fólks í umferðinni. Þær breytingar hægja á akandi umferð við þá staði þar sem leiðir þungra ökutækja skera leiðir óvarinna vegfarenda. Þessar breytingar koma í veg fyrir sum af alvarlegustu slysunum sem verða í umferð í þéttbýli. Það verður seint talin slæm hugmynd. Hvað svo sem varaformanninum “finnst”.

Höfundur er formaður Reiðhjólabænda.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×