Skoðun

Aldrei Rapyd, aldrei aftur

Lára Jónsdóttir skrifar

Í gær skaut ísraelski herinn á Gaza á fólk sem stóð í röð og beið eftir að fá matargjöf. 112 voru drepin og 760 særð. Karlar, konur og börn. Þessi mikli fjöldi segir okkur að þetta var ekki slysaskot heldur skipulögð aftaka á vopnlausu fólki sem búið er að svelta. Nokkur börn hafa þegar dáið úr hungri og vannæringu.

Ísraelski færsluhirðirinn Rapyd sem er með útibú á Íslandi styður ísrelska herinn bæði í orði og í verki. Rapyd hefur lýst afdráttarlausum stuðningi við ísraelska herinn á Gaza en tekur líka beinan þátt í stríðsrekstrinum með stríðsstofu (war-room) sem fyrirtækið setti á stofn til að hjálpa ísraelska hernum.

Íslenska hugvitið sem Rapyd stærir sig af í auglýsingum sínum er nú notað til að hjálpa ísraelska hernum við að fremja þjóðarmorð á Gaza.

Þess vegna viljum við ekki eiga nein viðskipti við Rapyd.

Aldrei nokkurn tímann.

Tala látinna á Gaza er komin yfir 30 þúsund og flest þeirra eru börn. Særðir eru yfir 70 þúsund.

Ísraelski herinn hefur sprengt alla innviði, hverju nafni sem þeir nefnast, skóla, sjúkrahús, vatnsveitur, rafmagnsveitur, moskur, söfn, barnaheimili og flest íbúðarhús.

Ísraelskir hermenn pósta myndböndum af sér við að ræna öllu verðmætu á mannlausum heimilum á Gaza og eyðileggja allt þar inni. Skellihlæjandi.

Rapyd hlær líka á leið í bankann því fyrirtækið er með milljarða samning við íslenska ríkið um færsluhirðingu ríkisstofnana. Það eru engin siðferðileg viðmið hjá Ríkiskaupum. Engin.

En við getum neitað að borga með korti á sjúkrahúsum, hjá sýslumönnum og í skólum. Borgað í staðinn með reiðufé eða fengið reikning í heimabanka og forðast þannig Rapyd.

Mörg íslensk fyrirtæki hafa hætt viðskiptum við Rapyd því þau vilja ekki skipta við fyrirtæki sem tekur beinan þátt í þjóðarmorði. Listi yfir fyrirtæki sem skipta og skipta ekki við Rapyd er á hirdir.is.

Mörg okkar getum ekki hugsað okkur að senda Rapyd peningana okkar.

Við viljum ekki eiga í neinum viðskiptum við Rapyd.

Aldrei aftur.

Höfundur er grunnskólakennari.




Skoðun

Skoðun

Sögu­legt tæki­færi

Logi Einarsson,Eydís Ásbjörnsdóttir,Sæunn Gísladóttir,Sindri S. Kristjánsson skrifar

Sjá meira


×