Skoðun

Seðla­banka­stjóri hengir bakara fyrir smið

Indriði Ingi Stefánsson skrifar

Líkt og í samanburðarlöndum hefur verðbólga verið há hér á landi síðustu misseri, en í flestum samanburðarlöndum er farið að rofa til og verðbólga fer hratt lækkandi. Það sama gerist hins vegar ekki hér og við erum enn að glíma við meira en 8% verðbólgu þrátt fyrir að hér séu stýrivextir í hæstu hæðum.

Ráðleggingar Seðlabankastjóra

Flestir bankastjórar seðlabanka hafa sig lítið frammi í opinberri umræðu, enda skynsamlegt til að viðhalda trúverðugleika. Því er öfugt farið hér. Nýlega tók Seðlabankastjóri að sér að veita fólki ráðgjöf um val á húsnæðislánum ef svo skyldi fara að nýlegar vaxtaákvarðanir gerðu þeim ómögulegt að standa skil á núverandi lánum. Enn furðulegra var að Seðlabankastjórinn ráðlagði fólki beinlínis að færa sig yfir í lánafyrirkomulag sem grefur undan möguleikum Seðlabankans til að hafa áhrif á neyslu með vaxtaákvörðunum

Fyrr á árinu gekk Seðlabankastjóri fram og var mjög harðorður gagnvart verkalýðshreyfingunni fyrir að semja um launahækkanir sem þó náðu ekki að halda í við verðbólgu. Það er kannski ekki skrítið að fólk velti fyrir sér á hvaða grundvelli Seðlabankastjóri leyfi sér slík afskipti og enn fremur hvaða umboð hann hafi til þess.

Hátt húsnæðisverð

Þrátt fyrir að síðustu mánuði hafi húsnæðisverð gefið aðeins eftir hefur húsnæði síðustu áratugi hækkað langt umfram laun og verðlag. Frá aldamótum hefur húsnæðisverð sjöfaldast og síðan í ágúst 2020 hefur það hækkað um 45% Sömu tölur fyrir vísitölu neysluverðs eru að frá aldamótum hefur verðlag þrefaldast og frá ágúst 2020 hefur verðlag hækkað um 23%. Fyrir vísitölu neysluverðs án húsnæðis er hækkunin mun minni eða 19%. Það er því alveg ljóst að húsnæðisverð bæði hækkar langt umfram verðlag og sú umframhækkun bætir mjög við verðbólgu. Við munum því varla ná tökum á verðbólgu án þess að ná tökum á húsnæðisverði, í það minnsta meðan húsnæðisverð er inni í vísitölunni.

Þriggja herbergja íbúð í miðbænum á 35 milljónir

Setjum hlutina í samhengi: í febrúar árið 2000 var auglýst til sölu hæð og ris við Grettisgötu á 11,3 milljónir. Í dag er auglýst til sölu 133 fm hæð og ris við Grettisgötu á 90 milljónir. Laun hafa vissulega fimmfaldast á sama tíma, hefði fasteignaverð hins vegar bara fimmfaldast væri þessi eign á 64 milljónir og þriggja herbergja íbúðin við Grettisgötu sem er sömuleiðis auglýst til sölu væri á 35 milljónir í stað 52 milljóna.

109 milljarðar

Á síðasta ári högnuðust skráð fyrirtæki í kauphöllinni um 109 milljarða og árið 2021 hagnaðist Alma leigufélag um 12,4 milljarða. Þessi hagnaður félaga kallaði hins vegar ekki á sömu viðbrögð Seðlabankastjóra. Það er því ekki úr vegi að fólk velti fyrir sér hvort verðbólguna megi rekja til græðgi launþega eða hvort mögulega sé hægt að rekja hana til annarra þátta. Viðskiptabankarnir einir og sér taka til sín tugi milljarða á hverju ári. Þegar slík uppgjör birtast heyrist lítið frá Seðlabankastjóra.

Það þýðir ekki að hengja bakara fyrir smið

Það er óskiljanlegt að Seðlabankastjóri ætli að setja ábyrgðina á verðbólgunni á verkalýðshreyfinguna en láta ótalin ofsahagnað fyrirtækja sem eru mörg hver að skila mjög hagstæðum uppgjörum. Þess fyrir utan ætti bankinn að horfa til þess hvaða áhrif eigin vaxtahækkanir hafa. Sértækar aðgerðir bankans koma hvað harðast niður á fyrstu kaupendum og tekjulágum eins og skilyrði um hámarkshlutfall lána af ráðstöfunartekjum.

Okkur hefur einfaldlega mistekist það verkefni að tryggja að nægjanlega mikið af húsnæði sé byggt til að veita öllu fólki öruggt þak yfir höfuðið. Bygging húsnæðis er mjög háð fjármagni og því vinnur hátt vaxtastig gegn því markmiði og fyrirséð að næstu misseri verður lítið byggt og verktakar munu jafnvel lenda í miklum vandræðum með að selja þær eignir sem þegar hafa verið byggðar vegna fjármögnunarvanda kaupenda.

Hvað er til ráða?

Það kann að hljóma frekar ógeðfelt en ein leið til að koma á jafnvægi væri að ekki reyna að koma hömlum á verðbólguna, með því að leyfa verðlagi að hækka umfram húsnæði væri hægt að nota verðbólguna til að færa húsnæðisverði nær þróun launa síðustu áratuga. Það er vissulega hvorki æskilegt eða heppilegt en þegar það eru engar góðar leiðir eftir getum við þurft að fara þær slæmu. Það verður þó ómögulegt ef stór hluti lána er verðtryggður. Vegna mikillar skuldsetningar getur húsnæðisverð ekki lækkað verulega án þess að stór hluti húsnæðiseigenda verði annað hvort tæknilega eða raunverulega gjaldþrota, því myndi slík lækkun óhjákvæmilega kalla á einhvers konar mótvægisaðgerðir.

Það er alveg ljóst að íslenskt samfélag þolir það ekki mikið lengur að ungt fólk geti ekki komið þaki yfir höfuðið. Það verður að vera forgangsmál að vinda ofan af þeirri stöðu. Það verður líka að skapa umhverfi þar sem við byggjum jafnt og þétt, því náum við aldrei með háu vaxtastigi. Það er líka ekkert annað en grimmd að kollvarpa aðstæðum fólks sem tók á sínum tíma ábyrga afstöðu um að kaupa húsnæði og veðjaði á Ísland sem íverustað. Á sama tíma eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar engin, Við höfum ekki efni á að hafa hér ríkisstjórn sem gerir ekkert í þessu, ekki í 2 mánuði og ekki í 2 ár, hvað þá lengur.

Það er löngu ljóst að við verðum að fara að skoða aðra kosti eins og til dæmis upptöku annars gjaldmiðils með lægri vöxtum, óháð öllu öðru verðum við að fara í stóruppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, innan og utan höfuðborgarsvæðis og strax ætti að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnulið aftur í 60%. Auk þess verðum við að taka til greina áhrif þeirra aðgerða sem gripið er til á húsnæðisverð frekar en áhrifa þeirra á verðlag, við einfaldlega höfum ekki efni á öðru.

Það sem við getum ekki gert er að skella skuldinni á verkalýðinn sem er að reyna að aðlaga sig að vonlausu húsnæðisverði. Við verðum að skila skuldinni þangað sem hún á heima: til aðgerðalausrar ríkisstjórnar, Seðlabanka sem spáir ekki í húsnæðisverð og fyrirtækja sem skila núna methagnaði.

Að lokum fyrir ykkur sem voruð ekki búin að fatta það. Það eru við fólkið í landinu, sem eru bakarinn.

Höfundur er varaþingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×